Skoðun

Tungumál eru lyklar að heimum

Hólmfríður Garðarsdóttir skrifar
Nýleg rannsókn sem birt er á vef Evrópska nýmálasetursins í Graz og gerð var á meðal evrópskra ungmenna staðfestir að þeir sem lagt hafa stund á nám í tveimur eða fleiri tungumálum og dvalið við nám og/eða störf utan heimalandsins eru mun frekar boðaðir í atvinnuviðtöl. Bent er á að athugul ígrundun framandi aðstæðna og umhverfis sé meginviðfangsefni þess sem að heiman dvelur og staðfest að sú færni í menningarlæsi sem fæst við þessar aðstæður leggi lóð á vogarskálar samskipta- og félagsfærni. Þessi þjálfun stuðlar því að farsælli tengslamyndun í hnattrænum samtíma.

„Vits er þörf þeim er víða ratar,“ segir áletrun sem blasir við þeim sem um Háskólatorg Háskóla Íslands fara og til að koma umræddu viti á framfæri þarf tjáningarmiðil, ósjaldan annað tungumál en íslensku í tilfelli Íslendinga. Því er nefnilega þannig háttað að utan 200 sjómílna landhelginnar dugar íslenskan skammt og þótt enska nýtist okkur í nágrannalöndunum taka önnur tungumál við þegar lengra er haldið. Stórhuga ungmenni sem horfa í alvöru til framtíðar ættu því ekki að láta blekkjast af ofuráherslu á einföldun umheimsins og klisjunni um að sæmileg enskukunnátta sé allt sem þarf. Án þekkingar á fleiri tungumálum en ensku, færni í menningarlæsi og hæfni í samskiptum verður starfsvettvangurinn að öllum líkindum takmarkaður við litla Ísland. Hæfni og færni í ensku skiptir auðvitað máli í þessu sambandi, en víðast hvar á Vesturlöndum er enskukunnátta álitin jafn sjálfsögð og grunnskólapróf. Það eru viðbótartungumálin sem skipta mestu máli. Eiginlegir heimsborgarar þurfa að geta látið ljós sitt skína fyrir tilstilli fleiri tungumála en enskunnar einnar – eða í formi þýðinga ef því er að skipta.

Tungumálanám og -kennsla er grunnforsenda þess að athafna-, viðskipta-, vísinda-, menningar- og menntalíf blómstri – ekki bara hér á landi heldur um heim allan. Símenntun á sviði tungumála og menningarlæsis er forsenda frekari framfara og það er aldrei of seint að hefjast handa!




Skoðun

Sjá meira


×