Viðskipti innlent

Fiskvinnsla áfram á Þingeyri og Flateyri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lokun fiskvinnslu á Flateyri og Þingeyri hefur verið afstýrt með samkomulagi þriggja fyrirtækja. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar lýsir ánægju og segir að þorpin muni að mestu halda þeim fjölda starfa sem verið hafa.

Á Flateyri hafði fyrirtækið Arctic Oddi tilkynnt í haust að það hygðist hætta allri bolfiskvinnslu á staðnum en halda áfram með vinnslu á eldisfiski. Á Þingeyri hafði útgerðarfyrirtækið Vísir tilkynnt í vor að allri fiskvinnslu þar yrði hætt innan árs.

Frá Flateyri við Önundarfjörð.Mynd/Stöð 2.
Bæði fyrirtækin, ásamt þriðja fyrirtækinu, Valþjófi, hafa nú kynnt samkomulag sem þau segja að styrki til langframa stoðir atvinnulífs bæði á Flateyri og Þingeyri og eyði um leið þeirri óvissu sem verið hafi. 



Grunnurinn er fiskeldið í Dýrafirði en vinnsla eldisafurðanna verður flutt frá Flateyri yfir til Þingeyrar, sem fyrirtækin segja að kalli á 15 störf í byrjun en síðan fleiri. Jafnframt mun fyrirtækið Valþjófur taka yfir fiskvinnslu Arctic Odda á Flateyri og vinna þar bolfisk, bæði frá Flateyri og Þingeyri, sem þau segja kalla á 20 störf.


Bátur Dýrfisks siglir úr Þingeyrarhöfn að eldiskvíum á Dýrafirði.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gísli Halldór Halldórsson, lýsti ánægju með þessa lausn í samtali við Stöð 2. Hann sagði að svo virtist sem unnt yrði að halda sama fjölda starfa að mestu á báðum stöðum og kvaðst Gísli jafnframt vonast til að þetta yrði grunnur að frekari styrkingu atvinnulífs þar.

Vonir eru bundnar við að vaxandi fiskeldi efli þorpin á Vestfjörðum.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Tengdar fréttir

VÍS lokar sex útibúum á landsbyggðinni

VÍS mun á næstu vikum loka sex útibúum á landsbyggðinni en þau eru í Hveragerði, Vík í Mýrdal, Bíldudal, Þingeyri og Þórshöfn. Þá verður öðru útibúinu í Fjallabyggð líka lokað.

Sjá umhverfisvænt fiskeldi sem lyftistöng Vestfjarða

Helsta fiskeldisfyrirtæki Vestfjarða, Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal, hefur nú sótt um að hefja eldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi eftir margra ára bið eftir leyfi til laxeldis.

„Skaði sem ekki verði bættur“

Framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis hf segir að engin samfélagsleg ábyrgð sé fólgin í því að halda áfram rekstri sem ekki gangi.

Þeir fara með kvótann á einu bretti burt

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, segir bæjarfélagið í áfalli eftir að tilkynnt var um lokun fiskvinnslunnar í bænum.

Þrjátíu störf á Flateyri í óvissu

Artic Oddi hættir bolfiskvinnslu og einbeitir sér alveg að fiskeldi og stefnir á sölu á botnfiskvinnslunni. Takist hún ekki missa um 30 manns vinnuna upp úr áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×