Skoðun

Styrjaldir og frelsi Íslendinga

Þorlákur Axel Jónsson skrifar
Íslendingar eiga frelsi sitt að talsverðu leyti að þakka úrslitum stórstyrjalda. Við erum eins og aðrir Evrópubúar hvað það varðar þó svo að við höfum ekki okkar eigin her og berðumst ekki við Dani með vopnum.

Nú þegar eitt hundrað ár eru að verða liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914 ættum við að minnast þess hversu rík tengsl aukinnar sjálfstjórnar þjóðarinnar og styrjalda voru. Málþóf Íslendinga sem hleypti upp Þjóðfundinum 1851 átti sér eðlilega skýringu í því að hendur hinnar nýju stjórnar danska ríkisins voru bundnar vegna vopnaðar uppreisnar Þjóðverja í hertogadæmunum. Íslendingar kröfðust sjálfstjórnar í miðri borgarastyrjöld. Úr þeirri stöðu leystist eftir landvinningastríð Þjóðverja á hendur Dönum 1864.

Fyrir Íslendinga var afleiðing þess að við fengum aukna sjálfstjórn með stöðulögum og stjórnarskrá. Er líklegt að Danir hefðu getað boðið Íslendingum fullveldi 1918 hefðu varnirnar brostið við fljótið Somme í Frakklandi síðsumars 1916 og einræðisríkin farið með sigur af hólmi? Í þeirri orrustu féllu Vestur-Íslendingar, sjálfboðaliðar í her Kanada, sumir þeirra enn á unglingsaldri.

Vissulega átti fyrri heimsstyrjöldin upptök sín í hernaðarhyggju, þjóðernishyggju og heimsvaldastefnu. Sannarlega öttu yfirstéttar-herforingjar og pólitískir leiðtogar eigin mönnum, verkalýðsstéttarpiltum og sveitastrákum, út í opinn dauðann á vígvöllunum.

Áminning

Hryllingur stríðsins ætti að vera okkur áminning um hætturnar sem fylgja tali pólitískra leiðtoga um sérstöðu þjóða og fyrir einangrun þeirra. Hugsjónir alþjóðahyggjunnar um friðsamlega samvinnu ríkja lifa því aðeins að venjulegt fólk greiði þeim atkvæði sitt. Fórnir Vestur-Íslendinga á vígvöllunum voru færðar í þágu hugmyndarinnar um sjálfsákvörðunarrétt þjóða en um leið til varnar því lýðræðisþjóðfélagi sem þeir höfðu eignast í Norður-Ameríku. Það var einmitt viðurkenning þessara sömu lýðræðisríkja á sjálfstæði Íslands sem réði úrslitum um stofnun lýðveldis hér í síðari heimsstyrjöldinni.

Frjálsar og fullvalda þjóðir hafa síðan myndað Evrópusambandið til þess að festa friðinn í sessi. Við ættum að hugsa okkur um vandlega áður en ógnandi sérhagsmunagæsla gagnvart nágrannalöndum í slagtogi með einræðisríkjum verður utanríkisstefna Íslands. Óvíst er að stjórn okkar á eigin málum aukist við það.




Skoðun

Sjá meira


×