Innlent

Nú tekur daginn að lengja á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Sólin kemur upp hér í Reykjavík klukkan 11.21 og sest 15.30.
Sólin kemur upp hér í Reykjavík klukkan 11.21 og sest 15.30. Vísir/GVA
„Sólin kemur upp hér í Reykjavík klukkan 11.21 og sest 15.30. Þetta er stysti dagur ársins, en það munar reyndar ekki miklu á þessum degi og dögunum í kring,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur á Veðurstofunni, en vetrarsólstöður eru í dag.

Daginn fer að lengja fyrst eftir vetrarsólstöður, en þá virðast áhrifin meiri síðdegis en að morgni. Fyrstu dagana eftir vetrarsólstöður seinkar jafnvel sólarupprásinni, ólíkt því sem búast mætti við, þannig að sólin kemur upp seinna á jólum en á sólstöðunum. „Það gerist ekki mikið fyrstu dagana. Milli jóla og nýárs kemur sólin einni mínútu seinna upp en sest seinna. Sólstöður eru hins vegar merktar í dag, 21. desember,“ segir Helga.

Helga segir að þó að dagarnir hafi verið stuttir að undanförnu þá hafi snjórinn ef til vill gert daginn bjartari. „Það er nú alltaf betra að hafa snjóinn í skammdeginu. Það lítur ekki út fyrir rigningu til jóla, þannig að áfram má búast við þessari snjóhulu. Það lítur út fyrir hvít jól um allt land.“

Spár Veðursstofunnar gera ráð fyrir að það snúist í norðaustanátt í dag og í nótt og fram eftir degi á morgun. „Svo á að lægja á Þorláksmessu. Á morgun má búast við éljum aðallega norðan- og austantil á landinu en svo dregur úr þessu. Á aðfangadag er hægur vinur og gætu verið einhver él, aðallega norðantil á landinu. Á jóladag snýst hann aðeins í suðlæga átt, en ennþá hægur vindur og kalt í veðri. Það má því búast við talsverðu frosti yfir hátíðirnar.“

Helga segir að á annan í jólum sé hins vegar gert ráð fyrir austan, norðaustan stormi með snjókomu eða slyddu. „Stormurinn á svo að ganga niður seint á laugardag. Það er því fínasta veður um jólin þar til á annan dag jóla. Þá kemur næsti stormur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×