Lífið

Tilkynntu óvart um óléttuna í kvöldfréttunum

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Sylvía Dag­mar Briem, tísku- og lífstílsbloggari hjá Femme.is, og kærasti henn­ar Emil Þór Jó­hanns­son eiga von á sínu fyrsta barni. Ákváðu þau að tilkynna vinum og vandamönnum gleðifregnirnar á heldur skemmtilegan hátt og fengu þau Boga Ágústsson, fréttamann á RÚV, með sér í lið. Þau Sylvía og Emil eru bæði hávaxin og því átti hin tilbúna frétt að fjalla um „lengsta barn Íslandssögunnar“ og með fréttinni átti síðan mynd af óléttutilkynningu að fylgja með. Tilkynninguna ætluðu þau síðan að birta á miðvikudaginn. 

Grínið fór ekki betur en svo að myndin rataði fyrir slysni inn í beina útsendingu kvöldfréttanna í gær en Sylvía, sem einnig starfar við myndblöndun hjá RÚV, var sjálf að vinna við útsendinguna.

„Þetta voru bara örfáar sekúndur en mér fannst þetta vera eins og heil eilífð. Ég var búin að senda myndina á vinkonu mína sem vinnur með mér á RÚV og hún er að gera allt klárt svo við getum tekið upp með Boga áður en íþróttafréttirnar byrja. Þetta fór alveg úrskeiðis og myndin fór í loftið,“ segir Sylvía. Þegar það rann upp fyrir henni hvað gerst hafði rak hún upp hátt óp.

„Það fengu allir sem unnu við útsendinguna sjokk en svo reyndi fólk bara að telja mér trú um að þetta hefði verið svo stutt í loftinu að enginn myndi taka eftir þessu. Það var ekki beint þannig,“ segir Sylvía hress en segist hafa hlegið að atvikinu stuttu síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.