Skoðun

Lækkum skatta og aukum kaupmátt

Elí Úlfarsson skrifar
Nú liggja fyrir nýir kjarasamningar samtaka launþega á almennum vinnumarkaði og vinnuveitenda. Fólk er að vonum missátt við þær kjarabætur sem því er lofað. Talað er um að launahækkanir séu of litlar og að lægstu laun þyrftu að hækka mun meira svo einhver dæmi séu nefnd. Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, stéttarfélaganna og ríkisstjórnin hvetja félagsmenn þó til þess að samþykkja samningana í þágu stöðugleika. Við erum þó líklega öll sammála um að frekari úrbóta sé þörf fyrir launafólk í landinu, en hvaða leiðir eru bestar?

Raunveruleg kaupmáttaraukning hlýtur að vera það sem mestu máli skiptir. Þær leiðir sem einfaldast er að fara hljóta því að vera skattalækkanir og lækkun tolla og vörugjalda. Það sem liggur beinast við er að lækka tekjuskatt og útsvar til þess að fólk fái að njóta ávaxta erfiðis síns og hafa þar með meira til skiptanna. Einnig breytir það heilmiklu að tollar og vörugjöld á nauðsynjavörur verði lækkuð eða afnumin til hagsbóta fyrir allan almenning, ekki hvað síst þá efnaminni. Lækkun virðisaukaskatts hefði sömu áhrif en lækkun hans yrði raunveruleg kjarabót.

Allir tapa á verðbólgu

En af hverju er þetta ekki gert? Helsta skýringin er sú að það sé ekkert svigrúm til skattalækkana. En snýst þetta virkilega um það? Snýst þetta ekki frekar um stjórnmálamennina sjálfa? Vilja þeir ekki frekar fá fé almennings í sínar hendur svo að þeir geti útdeilt því að eigin pólitíska hentugleika?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá hljótum við að vera sammála um að auka þurfi kaupmátt. Hærri krónutala mun ekki gera neitt annað en ýta undir víxlhækkun kaupgjalds og verðlags og vekja upp verðbólgudrauginn. Það tapa allir á verðbólgu. Öll viljum við hafa meira á milli handanna og hafa val um að geta eignast nýjustu tæki og tól eða nýjan bíl, ný föt, átt fyrir góðum mat, búið okkur fallegt og gott heimili og búið við stöðugleika í verðlagi. Við getum það um leið og stjórnmálamenn eru tilbúnir að slaka á klónni, þannig að almenningur í landinu fái að njóta launa sinna. Verður er verkamaður launa sinna, segir máltækið. Ef forystumenn verkalýðshreyfingarinnar væru með fullum sönsum væri aðalkrafa stéttarfélaganna að lækka skatta.




Skoðun

Sjá meira


×