Lífið

Nettur villingur og ótrúlegt nörd

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Inga Dóra Pétursdóttir
Inga Dóra Pétursdóttir
Það er létt yfir Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastýru UN Women, þar sem við sitjum yfir kaffibolla og spjöllum. Inga hefur verið í þessu starfi í fjögur ár og er einhvern veginn fædd í það. Hún talar af miklum eldmóði um verkefnin og það er greinilegt að þetta er ekki bara vinnan hennar heldur líka áhugamál númer eitt, tvö og þrjú.

Þótt ung sé að árum hefur hún farið víða og nú er hún á leiðinni í hálfs árs leyfi til að sinna vinnu og hugðarefnum sínum í Afganistan. Inga er mannfræðingur að mennt

Kynntist flestum skuggahliðum borgarastríðs

Hvernig kom það til að þú fetaðir þessa braut?

„Ég ólst upp úti á landi, í Laugarási í Biskupstungum. Það var gaman, hreint frábært, sérstaklega þegar ég var krakki. Það varð hins vegar erfiðara þegar ég varð unglingur. Þegar ég horfi til baka sé ég hvað ég var furðuleg blanda af nettum villingi og ótrúlegu nördi. Ég beið til dæmis alltaf spennt eftir Morgunblaðinu til að lesa erlendu fréttirnar. Ég klippti út fréttir af mannréttindabrotum úti um allan heim og límdi á spjöld sem ég safnaði saman og plastaði! Eins og svo margir krakkar og unglingar trúði ég því einlæglega að ég ætti eftir að bjarga öllum heiminum, þegar ég yrði loksins fullorðin og kæmist út í heim. Þegar ég heyrði svo um mannfræði þá var það bara ákveðið í mínum huga – þarna væri tækifærið mitt.“

Þú starfaðir lengi við þróunarmál í Afríku áður en þú tókst við starfinu sem framkvæmdastýra UN Women, hefurðu alltaf haft áhuga á hlutskipti fólks í þróunarlöndum?

„Ég hef alltaf verið haldin ólæknandi útlandaþrá og hef búið á ýmsum stöðum í gegnum tíðina. Í Gvatemala, Gana, Bandaríkjunum, Spáni og Malaví – og nú mun leiðin liggja til Afganistans seinna í mánuðinum til að vera þar næsta hálfa árið.

Það vakti strax spurningar hjá mér þegar ég bjó í Gvatemala 17 ára og mér voru settar svo miklar skorður – fyrir það eitt að vera stelpa. Ég upplifði það mjög sterkt að hugmyndir fólks í kringum mig um hvernig stelpur ættu að haga sér voru verulega frábrugðnar mínum hugmyndum. Það var eiginlega upphafið að áhuga á mínum á kynjafræði, sem hefur bara ágerst í gegnum árin.

Ég var til dæmis mjög hissa og vægast sagt ósátt þegar mér var tilkynnt á heimilinu, að ég hefði ekkert með eigin lykil að húsinu að gera, því ég ætti bara að fara út í fylgd með öðrum úr fjölskyldunni. Reyndar endaði dvölin í Gvatemla þannig, að ég varð starfsnemi hjá Sameinuðu þjóðunum og kynntist flestum skuggahliðum nýlokins 30 ára borgarastríðs, sem var ógleymanleg lífsreynsla.

Eftir því sem ég eltist og bjó á fleiri stöðum upplifði ég á eigin skinni hversu ólíkar kröfur eru gerðar til kvenna á ólíkum menningarsvæðum. Það er ekkert sem reitir mig meira til reiði en kerfisbundin mismunun sem konur og stúlkur búa við um allan heim vegna kyns þeirra.

Annað sem ég hef líka óendanlega mikinn áhuga á, er að velta fyrir mér hvernig fjallað er um konur – sérstaklega í suðurhluta heimsins – í almennri umræðu. Ég hef kynnst svo mörgum sterkum konum, sem búa við mjög erfiðar aðstæður, og þær myndu aldrei samþykkja þá mynd, sem oft er dregin upp af kynsystrum okkar í fátækari löndum – bjargarlausum eða konum sem þurfi að „bjarga“. Það sem við þurfum til að leiðrétta kynbundna mismunun er samstaða og samvinna.



Inga Dóra og Lífa, vinkona hennar
Endalausir „árekstrar“

Hvernig var í Afríku, t.d. í Malaví, þar sem þú varst – hvernig er fólk í þriðja heiminum frábrugðið okkur?

„Fólk er alls staðar eins í grunninn og að sama skapi er jafn fjölbreytt mannlífsflóra á hverjum stað. Það er ótrúlega gaman og reyndar líka krefjandi að laga sig að ólíkum menningarheimum og endalausir „árekstrar“.

Það var til dæmis mjög krefjandi að venjast því að þorpsbúar í litlu malavísku þorpi hefðu gríðarlegan áhuga á holdafari mínu og hefðu þörf fyrir að tala um það við mig í byrjun hvers samtals.

Maðurinn minn kom á eftir mér til þorpsins og seinna lýstu allir mikilli ánægju með hann, þar sem ég hefði fitnað svo mikið að það væri greinilegt að þetta væri góður eiginmaður. Ég átti mjög góða vinkonu, Lífu, sem bjó í þorpinu og ég hafði á orði við hana að mér þætti þetta orðið ansi þreytandi umræðuefni. Hún tók þessu alvarlega og sagðist ætla að koma þessum skilaboðum áfram. Það minntist enginn á þetta aftur við mig, en Lífa mætti hins vegar til mín á hverjum degi til að flytja mér fréttir af því hverjum þætti ég hafa fitnað núna eða hverjum þætti ég hafa aðeins grennst – og jafnframt að hún hefði sko sagt þeim að vera ekkert að minnast á þetta við mig!

Í fátæku landi eins og Malaví, þar sem sjúkdómar, vannæring og alnæmi eru hluti af daglegum veruleika er það merki um góða heilsu að vera með smá hold utan á sér. Þetta var því vel meint en ég man að steininn tók úr, þegar þorpsbúar sögðu mér að hafa engar áhyggjur af því að synda í vatninu á ákveðnu tímabili þrátt fyrir að það væru krókódílar á sveimi. Krókódílarnir myndu ekki gera mér neitt því þeir myndu bara halda ef þær sæju mig, að þar væri á ferð flóðhesturinn vinur þeirra!“

Hvað heillar þig mest í starfi þínu hjá UN Women?

„Það er svo margt! Fyrir það fyrsta þá vinn ég með kærum vinkonum og það er ómetanlegt að vera í vinnu þar sem alltaf er gaman að mæta. Það er ótrúlegt hvað það er mikið af frábæru fólki sem vinnur með okkur og leggur okkur lið við öll verkefnin. Svo eru það forréttindi að vinna að þessum málaflokki á Íslandi á þessum tímum. Það er feminísk uppvakning hér á landi og líka úti um allan heim.

Ekkert einkamál kvenna

Það starfa bara konur hjá UN Women, hafa karlar ekkert atkvæði þegar kemur að þessum málum?

„Ójú! Heldur betur. Við erum í mannréttindabaráttu og það að mannréttindi kvenna séu virt er sko alls ekki einkamál kvenna! Það er fjöldinn allur af karlmönnum sem leggja okkur lið á hverjum degi. Til dæmis eru karlmenn í stjórn UN Women á Íslandi og í stjórn Ungmennaráðsins og þriðjungur mánaðarlegra styrktaraðila okkar eru karlmenn fyrir utan alla þá sem koma að viðburðum og vitundarvakningu á Íslandi.

Sem betur fer hefur það verið að breytast á Íslandi að halda, að til að vera femínisti eða láta þig mannréttindabaráttu kvenna varða, þá þurfirðu að hafa kvensköp. Því miður hafa heyrst einhverjar aðrar raddir að undanförnu en það er sem betur fer ekki ráðandi skoðun.“

Og nú liggur leiðin til Afganistans. Hvað ertu að fara að gera þar?

„Mér bauðst að fara á vegum íslensku friðargæslunnar til starfa sem jafnréttisfulltrúi í aðalstöðvum SHAPE í Kabúl. Starf mitt mun fyrst og fremst snúast um að vinna að jafnréttismálum með afgönskum stjórnvöldum, alþjóðlegum og innlendum samtökum sem og innan NATO. Það eru miklir umbrotatímar fram undan í Afganistan á næstu mánuðum; forsetakosningar í vor og í árslok mun alþjóðlegt herlið fara úr landinu. Svo það verður spennandi að vera á staðnum og ég býst við að starf mitt muni taka mið af því hvernig sú þróun verður.“ 

Hvernig býr maður sig undir svona ferðalag?

„Góð spurning! Ég hef verið að velta því sama fyrir mér undanfarnar vikur.

Fyrir utan ýmis nauðsynleg praktísk atriði eins og sprautur og alls kyns pappírsstúss, þá hefur verið ómetanlegt að tala við fyrirrennara mína í starfinu. Svo les ég allt sem ég kemst yfir sem snertir Afganistan. Saga þessa lands er mögnuð og í raun lyginni líkust. Ég er rosalega spennt að kynnast landi og þjóð.“

Óþolandi kynjaskekkja

Talið berst að jafnréttisbaráttunni á Íslandi. Hvað finnst Ingu helst þurfa að breytast þar? Hún segir ótrúlegan árangur hafa náðst í jafnréttismálum á Íslandi og það sé fyrst og fremst vegna þess að hér hafi verið ótrúlega sterkar konur sem hafi rutt brautina af ástríðu, baráttuvilja og hugrekki.



„Sumt sem mér og jafnöldrum mínum finnst fullkomlega eðlilegt eins og það að atvinnuþátttaka kvenna sé einna mest í heimi hér, að leikskólar séu starfandi og fæðingarorlof sé eðlilegur hluti af lífinu eru mál, sem Kvennalistakonur/Kvennaframboðið börðust fyrir, fyrir aðeins þrjátíu árum.

Það er hins vegar enn þá óþolandi kynjaskekkja í okkar samfélagi; hlutfall kvenna í fjölmiðlum, launamismunur og við skulum ekki tala um kynferðisbrot. En það sem fer einna mest í taugarnar á mér er að það er enn þá of mikið einblínt á stöðluð kynjahlutverk sem eru hamlandi – fyrir konur, karla, stelpur, stráka og alla sem ekki falla beint inn í þessi einföldu og þröngu box.

Draumastaða mín í jafnréttismálum á Íslandi væri að við gætum sem samfélag sammælst um að það sé hagur okkar allra að fólk fái að njóta sín, á sínum forsendum. Þessi reiði sem maður sér í kommentakerfum í garð femínista, hinsegin fólks og annars fólks sem berst fyrir mannréttindum er alveg ótrúleg og ég vona innilega að það sé ekki lýsandi fyrir meirihluta þjóðarinnar.

Og svona rétt í lokin, svona víðförul baráttukona fyrir mannréttindum, eins og þú, hvar langar þig helst að búa og starfa í framtíðinni?

„Erfið spurning! Ég er bara búin að krossa við örfá lönd á löngum lista yfir draumastaði. Vonandi endist mér ævin til að klára listann.“

Álfheiður, Inga Dóra og Hanna - samstarfskonur hjá UN Women
Inga Dóra ásamt vinum í Malaví.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.