Innlent

Veik jarðlög og heitt vatn hægðu á framkvæmdum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verktakar í Norðfjarðargöngum hafa síðustu vikur þurft að styrkja göngin með járnbentum steypubogum.
Verktakar í Norðfjarðargöngum hafa síðustu vikur þurft að styrkja göngin með járnbentum steypubogum. Mynd/Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit
Framkvæmdir við Norðfjarðargöng eru nú á eftir áætlun. Verktakar í göngunum hafa síðustu fjórar vikur glímt við veik jarðlög sem hægja á gangagerðinni. Vaðlaheiðargöng í Eyjafirði eru enn á áætlun þrátt fyrir að mikið flæði af heitu vatni hafi tafið framkvæmdir.

„Við erum að glíma við veik setlög sem kalla á hæga yfirferð og miklar styrkingar,“ segir Guðmundur Þór Björnsson hjá verkfræðistofunni Hnit, sem fer með umsjón og eftirlit með framkvæmdum vegna Norðfjarðarganga.

Göngin eru nú 1.250 metra löng og verktakar grafa bæði frá Eskifirði og Fannardal í Norðfirði.

„Eskifjarðarmegin erum við búin að vera að glíma við þessi óstöðugu setlög og svo var byrjað heldur seinna en reiknað var með í Norðfirði. Það var út af erfiðu tíðarfari í desember og janúar sem gerði alla jarðvinnu erfiða,“ segir Guðmundur.

Hann segir göngin nú lengjast um 15-20 metra á viku en að meðalafköst séu um 55 metrar á viku.

„Þetta er eiginlega þriðja svona lagið sem við förum í gegnum. Þetta er svo sem ekkert sem við gátum ekki búist við en satt best að segja erum við hundleiðir á þessu. En við höfum fengið alveg glimrandi fína kafla inni á milli. Það er því ekkert annað að gera en að halda áfram og svo losnum við við þetta og þá verða allir glaðir aftur.“

Verktakar í Vaðlaheiðargöngum eru nú komnir fram hjá þeim sprungusvæðum sem þeir lentu á frá því um miðjan febrúar. Mikill tími hefur farið í að þétta berg í kringum sprungurnar og hefta vatnsflæði og það hefur tafið gangagerðina. Um 350 lítrar af 46 gráða heitu vatni streyma enn úr stærstu sprungunni á hverri sekúndu og mynda talsverða gufu við gangamunnann og hita og raka innar í göngunum.

„Við erum komnir 250 metra inn fyrir þá sprungu. En við höfum mikið þurft að bergþétta og á meðan erum við ekkert að sprengja. Við fórum niður í allt að tíu metra á viku en göngin höfðu fram að því lengst um 55 metra á viku að meðaltali,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. Göngin eru nú 2.150 metra löng.

„Við erum enn á áætlun og verðum það svo lengi sem það kemur ekki mikið af þessu til viðbótar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×