Skoðun

Dýravernd

Ragnheiður Sigurðardóttir skrifar
Ómar F. Dabney skrifaði nýlega í grein í Morgunblaðinu að dýraníðingar yrðu ekki stöðvaðir meðan þeir kæmust upp með að misþyrma dýrum. Misþyrming á litlum kettlingi sem hann fjallar um í grein sinni er ekkert einsdæmi um dýraníð hér á landi.

Óskar H.Valtýsson skrifaði mjög góða og fróðlega grein í Fréttablaðið 20. des. sl.: „Dýraverndarbarátta í molum.“ Hann deilir réttilega á hinn mjög svo varasama verksmiðjubúskap með dýr, t.d. í eldis- og loðdýraiðnaði. Hann furðar sig mjög, eins og margir aðrir, á algjöru getuleysi Dýraverndarsambands Íslands um að koma dýrunum til varnar.

Árni Stefán Árnason, lögfræðingur í dýrarétti, deilir einnig á illa meðferð dýra, t.d. hinar vafasömu girðingar á svæðum hreindýranna á Austurlandi en þær eru í raun slysagildrur þar sem dýrin hafa fest sig og mörg barist þar um til dauða. Líkamsleifar þeirra í girðingunum sanna það. Hreindýrin á Íslandi heyja óvenjulega harða lífsbaráttu. Á hinum löngu hörðu vetrum eru þau oftast skjóllaus á gróðursnauðum heiðum Íslands sem oftar en ekki eru þaktar snjólögum. Þá hrekjast þau oft til byggða og í garða fólks. Frá dýraverndarsjónarmiði ætti að gefa hreindýrunum á veturna. Í lok hins stutta sumars eru þau svo þrautelt af veiðimönnum og skotin í hundraðavís, ekki of vel á sig komin.

Útigangshross heyja líka harða lífsbaráttu. Ill meðferð á útigangshrossum er þjóðarskömm. Á löngum hörðum vetrum hafa útigangshross staðið úti í öllum veðrum án skjólveggja og oft með litla gjöf og stundum enga og þá hafa mörg hrossin verið svo illa á sig komin að þurft hefur dýralækni til að aflífa þau. Dýraverndarsamband Íslands ætti að skylda alla útigangshrossaeigendur til að byggja skjólveggi með þaki, m.a. vegna hnjúka sem hross fá á bakið í miskaldri úrkomu, og þar yrði þeim gefið.

Dýraverndarsamband Íslands hvar er það? Þegar lagðar hafa verið fram fyrirspurnir og ádeilur í gegnum áraraðir hefur sambandið ekki verið til viðtals. Það þegja þunnu hljóði og virðist oft hvorki heyra né sjá illa meðferð á dýrum. Dýraverndarsamband Íslands stendur sannarlega ekki undir nafni.




Skoðun

Sjá meira


×