Skoðun

Rittúlkun er málið

Klara Matthíasdóttir skrifar
Laugardaginn 9. ágúst sl. birtist grein í Fréttablaðinu þar sem framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar talar um verulegan skort á þjónustu við heyrnarskerta, þrátt fyrir að um stóran hóp sé að ræða, eða um fimmtíu þúsund manns. Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð.

Samtökin Heyrnarhjálp fögnuðu sjötíu og fimm ára afmæli haustið 2012 svo þau eru síður en svo ný af nálinni og hafa alla tíð barist fyrir hagsmunum heyrnarskertra. Eitt af baráttumálum félagsins er að rittúlkun verði viðurkennd sem aðgengisleið heyrnarskertra og að sjónvarpsefni sé rittúlkað (textað), sjá www.heyrnarhjalp.is.



Eins og réttilega er bent á í greininni nýtist rittúlkun mjög stórum hópi fólks, öllum þeim sem eru heyrnarskertir en einnig þeim sem eru að ná tökum á íslensku máli. Heyrnarlausir geta auk þess nýtt sér rittúlkun, þrátt fyrir að íslenska táknmálið sé þeirra viðurkennda aðgengisleið að samfélaginu. Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn situr (yfirleitt) við hlið þess sem er heyrnarskertur og ritar allt sem fram fer og er sagt. Sá sem er heyrnarskertur les þessar upplýsingar jafnóðum og er því alltaf meðvitaður um það sem rætt er um. Hann þarf því ekki að leggja sig allan fram um að reyna að heyra eitthvað eða eiga á hættu að missa samhengið sem gerist svo oft þegar margir tala saman.

Ef fleiri en einn þurfa rittúlkun, eða um fund eða ráðstefnu er að ræða, er algengt að rittúlkuninni sé varpað á tjald. Ég hef sjálf verið á fundum þar sem notast er við rittúlkun, og ætla ekki að hafa mörg orð um það hversu þægilegra það er að sjá textann sífellt á tjaldinu og ná hverju einasta orði. Þó er ég svo heppin að hafa fulla heyrn en get ímyndað mér hvernig það er fyrir þá sem eru heyrnarskertir.

Rittúlkun er skilvirk og tiltölulega auðveld leið til að miðla sjálfsögðum upplýsingum til heyrnarskertra og fjölmargra annarra. Það er hins vegar skortur á fjármagni frá hinu opinbera sem orsakar það að hún er ekki eins algeng og hún ætti að vera. Greitt er fyrir rittúlkun í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og dómskerfinu, en við aðrar aðstæður þarf fólk sjálft að borga fyrir starf rittúlksins (sbr. grein um rittúlkun eftir Þórnýju Björk Jakobsdóttur sem birtist í Heyrnarhjálp, 1. tbl. 17. árg., desember 2013). Best þekki ég til rittúlkunar í skólakerfinu, sem hefur gert heyrnarskertum einstaklingum mögulegt að stunda háskólanám.

Okkur verður tíðrætt um aðgengi, en hvað er aðgengi? Í víðum skilningi er það möguleiki okkar til að upplifa, njóta, sjá og hlusta á það sem fram fer í umhverfinu. Enginn vill vera lokaður af og missa af því sem gefur lífinu gildi og við teljum mikilvægt. Textun er aðgengi að lífinu og rittúlkun er málið. Notum hana meira en nú er gert og gerum þannig sem flestum kleift að „heyra“ og vera með.




Skoðun

Sjá meira


×