Lífið

Kyngir stoltinu í frisbígolfi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Margrét Gauja er ánægð með þessar nýju framkvæmdir.
Margrét Gauja er ánægð með þessar nýju framkvæmdir. Vísir/Heiða
„Þetta er vinsælt sport og sívaxandi og hefur gefist vel á Klambratúni. Hugmyndin kom inn á Betri Hafnarfjörður og við tókum strax vel í hana,“ segir Margrét Gauja Magnúsdóttir, formaður fjölskylduráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs í Hafnarfirði.

Framkvæmdir við frisbígolfvöll hefjast á Víðistaðatúni í vikunni. Nokkrir frisbígolfvellir eru á Íslandi en sá fyrsti var opnaður á Úlfljótsvatni árið 2000. Þá er hægt að spila frisbígolf í Mosfellsbæ, í Gufunesi, á Klambratúni, á Akureyri, við Laugavatn, á Akranesi og á Flateyri.

„Við ætlum að byrja með sex holu völl í sumar og ef þetta gengur vel verður hann stækkaður í níu holur á næsta ári,“ bætir Margrét við.

Ekki er aðeins fyrirhugað að búa til frisbígolfvöll í Hafnarfirði í sumar en vellir í Vatnaskógi, við Apavatn, í Miðhúsaskógi, á Flúðum, á Húsavík, á Hrísey ásamt nýjum völlum í Reykjavík bætast við frísbígolfvallaflóruna í sumar. Í lok sumars er því áætlað að frisbígolfvellir á Íslandi verði sautján talsins.

Margrét Gauja segist ekki hafa prófað íþróttina.

„Nei, ég hef verið glötuð í öllum íþróttum sem krefjast þess að ég hitti en ég mun pottþétt draga fjölskylduna á Víðistaðatúnið að leika. Krakkarnir munu bursta mig en það er í lagi. Ég get alveg kyngt keppnisskapinu einstaka sinnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.