Skoðun

Finndu styrkinn til að gera það sem þú vilt

Hildur Þórðardóttir skrifar
Til hvers eru dagdraumar? Eru þeir bara til að stytta tímann á milli þess sem við gerum eitthvað leiðinlegt eða eru þeir vísbending um hvað okkur virkilega langar til að gera?

Við fæðumst öll með drauma, langanir og þrár en smám saman bælum við þau niður. Okkur var jafnvel kennt strax í æsku að vera ekki með þessa eigingirni og hugsa frekar um hvernig öðrum líður.

Við höfum alls kyns afsakanir fyrir því að gera ekki það sem okkur langar til. Þegar búið er að sinna öllum hinum er enginn tími eftir handa okkur sjálfum. Við gætum orðið blönk ef skiptum um vinnu eða hefjum nýtt nám og okkur gæti mistekist.

Á kvöldin er enginn tími til að læra að dansa eða nýtt tungumál því það þarf að horfa á sjónvarpið. Það væri fráleitt að fara til útlanda í mánuð þó við þráum það svo heitt því fjölskyldan gæti aldrei verið án okkar. Við erum jafnvel ósátt í sambandi en gerum ekkert því það eru að koma páskar og ekki viljum við skemma páskana fyrir fjölskyldunni.

Á meðan kæfum við drauma og langanir með gosi, sælgæti eða snakki fyrir framan sjónvarpið, áfengi, sígarettum, skókaupum, nýrri klippingu eða græjukaupum. Okkur líður bölvanlega innra með okkur en breiðum yfir það með nýjum fötum eða nýjum síma. Við kannski kvörtum og kveinum um allt sem aflaga fer í samfélaginu en þorum ekki að líta í eigin barm og sjá hvað er aflaga í okkar eigin lífi.

Í bókinni Finndu styrkinn til að gera það sem þú vilt fjalla ég um þessa tilhneigingu okkar að bæla niður langanir og þrár og leiðir til úrbóta. Það er mikilvægt að hugsa um eigin líðan, því við fáum kvíðaköst eða fyllumst depurð ef við sinnum ekki löngunum og þrám. Það þýðir ekkert að taka bara geðlyf til að breiða yfir hversu vansæl við erum. 

Lífið er of dýrmætt til að sóa því í vonleysi, leiðindi eða doða.

Það verður að gera eitthvað í ástandinu. Það er miklu betra að viðra langanir okkar og drauma við fjölskylduna og sjá hvort ekki finnist lausnir, heldur en að hanga áfram vonlaus og yfirbugaður í leiðindum og depurð. Fjölskyldan vill að við séum ánægð. 

Börn vilja miklu frekar eiga ánægða foreldra með minni pening heldur en óánægða foreldra með mikinn pening.  Ef makinn vill ekki að þú sért ánægð er hjónabandið ekki heilbrigt.

Fjölskyldan getur verið án þín í mánuð á meðan þú finnur sjálfa þig í útlöndum. Sjónvarpið eyðileggst ekki þótt þú kveikir ekki á því. Þú verður ekki heimilislaus þó þú hættir að vinna og skráir þig í nám. Reiknaðu bara dæmið áður en þú byrjar, sparaðu og skoðaðu möguleikana. 

Lestu bókina ef þig vantar hjálp. Finndu styrkinn til að gera það sem þig langar mest af öllu. Þú getur látið draumana rætast. Byrjaðu smátt og finndu styrkinn aukast. Trúðu á sjálfa þig. Þú ert sterk, hugrökk og úrræðagóð. Þú ert frábær eins og þú ert.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×