„Við gerðum átta þætti með Stórveldinu sem sýndir voru á Bravó. Það var ótrúlega skemmtilegt og þegar Bravó ævintýrið kláraðist gerðum við „pilot“-þátt með Stórveldinu og ætluðum að reyna að koma Tinnu og Tótu í sjónvarpið. Það gekk ekki upp en við Bylgja erum ekki tilbúnar að kveðja dætur okkar Tinnu og Tótu og ætlum því að halda áfram að gera þætti og setja á YouTube. Til þess að við endum ekki á götunni, að borða upp úr ruslatunnum hófum við söfnun á Karolina Fund,“ segir Anna. Þær Bylgja ætla að reyna að safna tvö hundruð þúsund krónum á síðunni.

Þeir sem styðja stöllurnar fá ýmislegt að launum, til dæmis áritaða mynd af Tinnu og Tótu og persónulegt bréf frá þeim eða eintaklingsmiðaða ráðgjöf í vídjóbloggi.
Tinna og Tóta láta sér heimamarkaðinn ekki nægja og stefna á frekari landvinninga með nýju seríunni.
„Í næstu þáttaröð munu áhorfendur fá ýmis góð ráð, bæði til að halda sér í formi og til þess að vera fallegir. Helsta breytingin er sú að þær Tinna og Tóta ætla að skipta yfir í ensku svo þær geti líka hjálpað feita og ljóta fólkinu í útlöndum. Já, þær eru sem sagt að fara í heljarinnar útrás og það er ekki langt í heimsfrægð hjá þeim,“ segir Anna.