Lífið

10 frábær íslensk myndbönd á Youtube

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Íslendingar eiga líkt og aðrar þjóðir mörg einstaklega skemmtileg innslög á Youtube. Lífið tók saman tíu stórskemmtileg myndbönd sem kitla hláturtaugarnar.





Logi Bergmann átti í stökustu vandræðum með framburðinn á forseta Túrkmenistans, Gurbanguly Mälikgulyýewiç Berdimuhamedow. Brynhildur Ólafsdóttir, samstarfskona Loga, barðist svo við hláturinn í inngangi næstu fréttar.



Íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson tók viðtal við íshokkíkappann Aron Levý Stefánsson og vissi bókstaflega ekkert hvað hann ætlaði að spyrja hann að. Aron hafði ekki átt góðan dag í marki sinna manna og var því ekki beint að nenna þessu viðtali eins og sést vel.





Stefán Karl Stefánsson leikari braut glas í beinni útsendingu í viðtali hjá Elsu Maríu Jakobsdóttur í Kastljósi árið 2009. Elsa María bendir Stefáni góðfúslega á að nú sé ekki hægt að klippa enda um beina útsendingu að ræða. Stefán Karl lætur þetta ekkert á sig fá eins og sést í myndbandinu.



Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður RÚV missir röddina í beinni útsendingu kvöldfréttatímans. Hann gerir góða tilraun til þess að lesa innganginn þrátt fyrir kvefið en áhorfendur eru eflaust flestir búnir að missa þráðinn þegar lestrinum er lokið.



„It‘s great, it‘s game game!“ Stressaður íþróttafréttamaður tekur viðtal við körfuknattleikskappann Nick Bradford eftir sigurleik Keflavíkur.



Hver man ekki eftir Villa sem kepptist um að komast í Bandið hans Bubba? Internetið gleymir honum allavega aldrei.



Páll Arason, sem að öllum líkindum er þekktastur fyrir það að hafa gefið Hinu ízlenska reðasafni sitt allra heilagasta eftir fráfall hans, er í viðtali hjá Johnny National í sjónvarpsþættinum Íslensk kjötsúpa. Páll er ekki parsáttur við þær spurningar sem Johnny lætur flakka og á endanum gengur hann bálreiður út.



Kristinn A. Kristmundsson, öllu betur þekktur sem Kiddi Vídjófluga, sló í gegn í eftirminnilegu viðtali í Dagsljósi RÚV árið 1992 þar sem hann sagði þjóðinni frá vídjóleigunni sinni, útfararþjónustunni og miklum áhuga sínum á diskódansi.



Útvarpsmaðurinn Andri Freyr prófar stafrænt stýri í Kastljósi. Í fyrra skiptið er hann allsgáður og gengur aksturinn nokkuð vel. Þegar hann er kominn með nokkra kalda í blóðið verður viðbragðið öllu verra eins og sjá má í þessu eftirminnilega myndskeiði.



Ingvi Hrafn Jónsson átti líklega ekki von á því að jarðskjálfti upp á 6,2 á Richter myndi bresta á í beinni útsendingu Hrafnaþings á ÍNN árið 2008. Ingvi veltir því fyrir sér hvort um stóra Suðurlandsskjálftann sé að ræða og segir í lokin að hann sé alveg skíthræddur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.