Handbolti

Aron: Næsta sem ég veit að ég ligg í jörðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron mun spila með íslenska landsliðinu á HM í Katar.
Aron mun spila með íslenska landsliðinu á HM í Katar. Vísir/Getty
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, segir að árásin á sig í miðbæ Reykjavíkur um helgina hafi verið tilefnislaus.

Eins og Vísir greindi frá í morgun varð Aron fyrir líkamsárás og missir af þeim sökum af æfingu íslenska landsliðsins í dag en liðið hefur þá undirbúning sinn fyrir HM í Katar.

Aron sagði í samtali við fréttastofu RÚV að hann hafi verið á leið upp í leigubíl þegar tveir menn réðust skyndilega á hann. „Og það næsta sem ég veit er að ég ligg í jörðinni og árásarmennirnir flúnir af vettvangi,“ sagði Aron.

Landsliðsmaðurinn fer í myndatöku í dag en telur að hann sé óbrotinn. Hann sé þó búinn að kæra árásina til lögreglu en hann hefur haldið kyrru fyrir síðan árásin átti sér stað og haldið sér verkjalausum með verkjalyfjum.

„Ég ætla ekki að leyfa þessum mönnum að komast upp með þetta enda hefur árásin þegar haft sínar afleiðingar - ég missi af tveimur landsliðsæfingum,“ sagði Aron.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×