Lífið

Þau eru jafngömul

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Aldur er afstæður eins og einhver segir og oft á tíðum er nær ómögulegt að giska á aldur fólks - enda kæra margir sig alls ekki um það.

Lífið fór á stúfana og fann nokkra þjóðþekkta Íslendinga sem eru jafngamlir öðrum þjóðþekktum Íslendingum og niðurstöðurnar komu oft á tíðum mjög á óvart.

Helgi Seljan og Ásdís Rán

Fædd árið 1979

Sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan og Ísdrottningin Ásdís Rán eru jafngömul en hafa farið talsvert mismunandi leiðir í lífinu. Helgi hefur löngum þótt skeleggur fréttamaður í Kastljósinu en Ásdís hefur sigrað heiminn með útlitið að vopni í fyrirsætubransanum.

Hildur Lilliendahl og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir

Fæddar árið 1981

Á því herrans árið 1981 komu kvenskörungurinn Hildur Lilliendahl og sjónvarpsstjarnan Ragnhildur Steinunn í heiminn. Þær eru afar ólíkar og hefði maður haldið að einhver ár væru á milli þeirra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sölvi Blöndal

Fæddir árið 1975

Hverjum hefði dottið í hug að forsætisráðherra vor væri jafngamall og einn farsælasti tónlistarmaður landsins? Ef að hlutirnir hefðu æxlast öðruvísi í den hefði Sigmundur kannski getað fengið að komast að í rappsveit Sölva, Quarashi?

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Pétur Marteinsson

Fædd árið 1973

Sveinbjörg Birna hefur verið afar umdeild síðustu mánuði og aldrei fer lítið fyrir Pétri Marteinssyni enda með mörg járn í eldinum eftir að hann lagði fótboltaskóna á hilluna.

Auðunn Blöndal og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Fædd árið 1980

Margir kenna Auðunn Blöndal, eða Audda Blö, við grín og glens en Þórdísi Elvu við talsvert alvarlegri málefni. Þau eru jafngömul.

Bjarni Benediktsson og Björn Jörundur

Fæddir árið 1970

Stjórnmálamaðurinn og popparinn eru báðir dökkhærðir en annað sem þeir eiga sameiginlegt er að þeir eru báðir fæddir árið 1970.

Ásgeir Trausti og Logi Pedro

Fæddir árið 1992

Þeir eru ungir, fæddir árið 1992, og hafa báðir gert það gífurlega gott í tónlistarbransanum. Þeir eru Ásgeir Trausti og Logi Pedro úr Retro Stefson.

Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Eiður Smári Guðjohnsen

Fædd árið 1978

Rikka og Eiður hugsa bæði afar vel um heilsuna og það kemur því ekki mikið á óvart að þau séu fædd sama ár - 1978.

Dóra Takefusa og Fjölnir Þorgeirsson

Fædd árið 1971

Þau bera aldurinn vel þessi tvö og virðast bara yngjast með hverju árinu sem líður. Jafngömul og alltaf með nóg fyrir stafni.

Gunnar Nelson og Friðrik Dór

Fæddir árið 1988

Bardagakappinn og tónlistarmaðurinn eiga kannski ekki margt sameiginlegt fyrir utan það að þeir komu báðir í heiminn árið 1988, foreldrum sínum til mikillar ánægju.

Gylfi Þór Sigurðsson og Nanna Bryndís

Fædd árið 1989

Fótboltamaðurinn og Of Monsters and Men-söngkonan eru bæði afar ung en hafa þrátt fyrir ungan aldur náð heimsfrægð. Þau hafa greinilega fæðst undir heillastjörnu það góða ár 1989.

Sverrir Þór Sverrisson og Marta María Jónasdóttir

Fædd árið 1977

Sverrir gengur í daglegu tali undir nafninu Sveppi og elskar fátt meira en að gleðja og grínast. Marta María stendur vaktina á Smartlandinu þar sem hún reynir að miðla fróðleik en þau Sveppi eru jafngömul.

Vala Grand og Elma Stefanía

Fæddar árið 1986

Elma Stefanía er ein skærasta stjarnan í íslensku leikhúsi um þessar mundir og Vala Grand hefur komið víða við á síðustu árum. Þessar tvær, glæsilegu konur eru fæddar sama ár.

Tobba Marinós og Björn Bragi

Fædd árið 1984

Þeir sem fæddir eru árið 1984 hafa kannski fengið grínið í vöggugjöf því bæði Tobba og Björn Bragi þykja gríðarlega fyndin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×