Skoðun

Háttvirti þingmaður, elskarðu mig í alvörunni?

Helga Birgisdóttir skrifar
Ég meina auðvitað ekki hvort þú elskir mig á ástríðufullan hátt eins og ástmey eða eins innilega og börnin þín. Ég bara spyr af því mér finnst það liggja í hjartans eðli að þú elskir mig . . . hreinlega af því að þér virðist svo umhugað um mig – þú hefur lofað að sjá um mig og láta líf mitt verða betra í dag en í gær. Ég hef svo oft heyrt þig segja þetta - að þú ætlir að bæta líf mitt og annarra í þjóðfélaginu.

Það virkar kannski dálítið vemmilegt að segja elska – það hljómar eitthvað svo stórt og mikið – eitthvað svo amerískt. En er ekki sagt; elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig?

Mér finnst svo fallegt að þú skulir elska mig án þess að þekkja mig persónulega. Ég næ að slaka á. Þar sem þú hefur ákveðið vald í þjóðfélaginu þá gefur þetta mér vellíðan og öryggistilfinningu. Ég get treyst því að grunnþarfir mínar verði í hávegum hafðar. Ég fæ pottþétt alltaf nóg að borða. Ég fæ öruggt húsaskjól, ég fæ umhyggju og aðstoð þegar ég er veik og þarf á að halda. Ég get haldið reisn minni og upplifað að ég skipti máli. Ég þarf ekki að kvíða neinu.

Ég bið þig samt endilega um eitt; Hættu að hræða mig . . . af gömlum vana þínum. Ég veit þú meinar vel en það er slæmt fyrir andlega og líkamlega heilsu mína að vera mötuð á ótta – að allt fari fjandans til ef ég haga mér ekki á þann hátt sem þú vilt. Ég verð bara taugaveikluð af öllum þessum áróðri.

Þú minnir á foreldra sem stöðugt segja börnum sínum að passa sig á hinu og þessu. Þau mega ekki prófa neitt spennandi sem gæti þó þroskað þau og styrkt, eins og það að klifra í trjám - þau gætu dottið. Öruggast finnst þér að endurtaka sama leikinn, sem ÞÚ velur, AFTUR og AFTUR og sleppa því að prófa nýjar leiðir sem gætu þó gert lífið skemmtilegra.

Ný leið væri t.d. að forgangsraða gildum okkar á annan hátt. Kærleikur, samkennd og sköpunargleði þættu merkilegri en allt annað – jafnvel merkilegri en hagvöxtur. Veit þú vilt vel en ef þú elskar mig í alvörunni þá viltu væntanlega kenna mér (með fordæmi) að rækta þessa eiginleika af því að þeir koma sér vel. Margir munu elska mig og vera sannir vinir ef ég hef þessa kosti. Ég sé líka að þegar þú sjálfur felur þessa eiginleika þá elska þig fáir . . . fólk baktalar þig og ætlar þér allt hið versta . . . þó þú viljir hið besta.

Ég starfa núna sem hjúkka á bráðageðdeild og sé hvernig kvíði og áhyggjur geta farið með heilsu fólks . Veit þú trúir því kannski ekki en mörgum líður hreint hryllilega – sjá allt svart. Það er súrrealískt hve mörgum langar að deyja og flýja þannig hlutskipti sitt og yfir fjörutíu einstaklingum tekst það á hverju ári hér á Íslandinu góða. Þarna getur þú komið sterkur inn og breytt mörgu . . . sem betur fer  . Ég reyni líka mitt besta og sinni djobbi mínu ágætlega, þ.e. bjarga mannslífum af og til, enda með 30 ára starfsreynslu og 380.000 kr. í laun á mánuði (þ.e. ef ég væri í fullu starfi sem er erfitt í álagsmikilli vaktavinnu). Ég lofa þó að leggja mig alla fram ef þú leggst einhvern tímann í deildina mína - gætir nú samt óvart orðið útundan því ég er oft eina hjúkkan á vakt með 19 skjólstæðinga.

Talandi um ástina þá er stóra meinið skortur á sjálfsást – og vonleysi um að upplifa hana. Einmanaleiki grípur hugann sem verður veikur og kann ekki leið út. Þess vegna er lífsnauðsynlegt að kenna börnum kærleika, samkennd og aðrar góðar tilfinningar. Lífið virkar eins og búmmerang - þú færð til baka það sem þú sendir frá þér - á endanum. Þetta sannast skemmtilega með brosinu, þegar þú brosir færðu bros til baka - og veistu hvað, BROSIÐ ÞITT HEILAR mörg mein og þannig getur þú sparað heilbrigðiskerfinu góða summu.

Ég er þakklát fyrir þig elsku þingmaður því þú kennir mér mikið; með kostum þínum . . . hvernig ég vil vera, og brestum . . . hvernig ég vil ekki vera. Þú eins og við hin erum alltaf fyrirmyndir hvort sem við viljum eða ekki.

Ég sendi þér bros og blessun . . . svo þjóðinni líði vel.

ÞVÍ ÖLL ERUM VIÐ JÚ EITT!




Skoðun

Sjá meira


×