Golf

Marcel Siem stal sigrinum í Shanghai

Siem og kylfusveinn hans fagna sigrinum í gær.
Siem og kylfusveinn hans fagna sigrinum í gær. AP
Þjóðverjinn Marcel Siem sigraði á BMW meistaramótinu sem kláraðist í nótt en sigurinn er hans fjórði á Evrópumótaröðinni á ferlinum. Leikið var á Lake Malaren í Shanghai í Kína en BMW meistaramótið er fyrsta mótið í lokamótaröð Evrópumótaraðarinnar.

Fyrir lokahringinn var Frakkinn Alexander Levy með góða fjögurra högga forystu en hann var heila 22 undir pari. Hann náði þó ekki að halda uppteknum hætti á lokahringnum sem spilaðist í mun erfiðari aðstæðum en fyrstu þrír hringirnir.

Levy kom inn á 78 höggum eða sex yfir pari og kláraði hann því mótið á 16 höggum undir pari. Þetta nýttu Marcel Siem og Ross Fisher sér en þeir enduðu einnig mótið á 16 undir pari og því þurfti að grípa til bráðabana.

Á fyrstu holu í bráðabananum vippaði Siem svo í fyrir fugli á meðan að Levy og Fisher fengu aðeins par og sigurinn var því hans.

Ryder-stjörnurnar Justin Rose og Jamie Donaldson deildu fjórða sætinu á 15 höggum undir pari en Rose hefði komist í bráðabanann ef hann hefði ekki fengið skolla á lokaholunni.

Fyrir sigurinn fékk Siem rúmlega 250 milljónir í sinn hlut en BMW masters er eitt veglegasta mótið sem haldið er á Evrópumótaröðinni á hverju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×