Innlent

Segir vafa leika á um hvort rassskelling hafi sést á myndbandinu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari. Hún sendi frá sér tilkynningu í dag vegna álits umboðsmanns barna.
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari. Hún sendi frá sér tilkynningu í dag vegna álits umboðsmanns barna. Vísir / Samsett mynd
Ríkissaksóknari segir að vafi hafi leikið á því hvort að sú snerting sem sést á myndbandinu sem lagt var fram vegna rannsóknar á harðræði í 101 leikskóla hafi verið rassskelling. Saksóknari hafnar þeirra túlkun umboðsmanns barna að hann telji rassskellingu ekki vera ofbeldi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ríkissaksóknari hefur sent frá sér vegna álits sem umboðsmaður barna sendi frá sér. Í yfirlýsingunni segist ríkissaksóknari líta það alvarlegum augum að umboðsmaður skuli draga þær ályktanir af afgreiðslu málsins að börnum sé ekki veitt refsivernd gegn líkamlegri valdbeitingu starfsfólks leikskóla. 



Saksóknari gerir einnig athugasemd við fullyrðingu umboðsmanns að það virðist hafið yfir skynsamlegan vafa að umræddur starfsmaður notaði ítrekað þá aðferð að slá á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga.

„Í afstöðu ríkissaksóknara, þar sem niðurstaða lögreglustjóra um að fella málið niður var staðfest, var gerð grein fyrir því að atvik væru mjög óljós hvað þetta varðar,“ segir ríkissaksóknari.

Í yfirlýsingunni kemur fram að þrjú vitni hafi ekki sagst hafa séð umræddan starfsmann flengja börn, aðrir þrír hafi séð hana en gátu ekki lýst því hve oft, hvaða börn né með hvaða hætti rassskellingarnar áttu sér stað. „Ekki var því unnt að komast að niðurstöðu um það hvort vitnin voru að lýsa sömu atvikum eða hvort sú háttsemi sem vitnin lýstu væri refsiverð, en kærða neitaði sök hvað þetta varðaði,“ segir saksóknari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×