Skoðun

Engin haldbær rök fyrir áframhaldandi lögbanni á kannabis

Benjamín Sigurgeirsson skrifar
Innflutningur, ræktun, sala og varsla kannabisefna hafa verið bönnuð með lögum á Íslandi í áratugi. Þó svo að neysla kannabisefna sé ekki bönnuð með lögum þá er vandséð hvernig hægt sé að neyta kannabisefna á löglegan hátt í slíku lagaumhverfi.

En hvers vegna eru kannabisefni bönnuð með lögum og er réttlætanlegt að viðhalda slíku banni í nútímasamfélagi? Þessi umræða hefur margoft sprottið upp í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem borin eru á borð misgóð rök með og á móti lögleiðingu kannabisefna. Oftar en ekki bera þessar rökræður lítinn ávöxt og niðurstaðan í besta falli sú að fólk verður sammála um að vera ósammála.

Staðreyndir málsins eru hinsvegar þær að þau rök sem er haldið á lofti fyrir núverandi stefnu um lögbann kannabisefna standast ekki skoðun. Í eftirfarandi grein er farið yfir þau helstu rök sem fylgjendur lögbannsins halda á lofti í sínum málflutningi og sýnt fram á, með eins skýrum hætti og frekast verður á kosið, að þau eru í besta falli veigalítil og í versta falli röng og áróðurskennd.

Flestir, ef ekki allir, sem eru fylgjandi banninu halda því fast á lofti að kannabisefni séu hættuleg. Ef svo væri ekki þá væri ekki mikill grundvöllur fyrir því að hafa þau ólögleg.

Alveg frá því að kannabisefni voru bönnuð í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldarinnar hafa fjarstæðukenndar fullyrðingar um skaðsemi kannabis ráðið ríkjum í málflutningi þeirra sem eru fylgjandi banninu. Fullyrðingar á borð við þær að notkun kannabis leiddi til ofbeldis, geðveiki og dauða voru alkunnar sem og fullyrðingar sprottnar uppúr kynþáttahatri sem sögðu að áhrif kannabis létu blökkumenn halda að þeir væru hvíta manninum jafnir og að hvítar konur ættu á hættu að vera nauðgað af blökkumönnum undir áhrifum kannabisefna.

Þó svo að flestir sjái líklega bilunina í slíkum fullyrðingum í dag þá hefur þessi upprunalega barátta gegn kannabis, sem ól á fáfræði, fávisku og fordómum, verið ansi lífseig og er enn við lýði, þó undir breyttum formerkjum.

Enn þann dag í dag er því haldið fram að kannabisefni séu svo hættuleg gagnvart einstaklingum og þjóðfélagi að þau beri að banna með lögum. Neytendur kannabis eru gjarnan litnir hornauga rétt eins og þeir ættu að skammast sín; fyrir að vera slæmar fyrirmyndir, fyrir að senda ungmennum þjóðarinnar röng skilaboð. Í augum margra eru kannabisneytendur upp til hópa letingjar og aumingjar; samfélagsleg smán sem ber að uppræta.

Aðrir benda á að kannabisneysla geti leitt til fíknar og ekki bara í kannabisefni heldur leiði kannabisneysla neytendur út í neyslu sterkari efna á borð við amfetamín og kókaín. Loks benda áhyggjufullir borgarar á tengsl kannabisnotkunar við geðrof og geðveiki og telja heillvænlegast að koma í veg fyrir slík tilvik með áframhaldandi lögbanni.

En hversu hættuleg eru kannabisefni í raun og veru?

Kannabisefni eru ekki með öllu skaðlaus en þegar litið er á staðreyndir á yfirvegaðann hátt kemur í ljós að kannabisefni eru, sérstaklega í samanburði við önnur efni á borð við áfengi, tiltölulega skaðlítil. Það að kannabisneytendur séu upp til hópa aumingjar og letingjar er ekkert annað en staðalímynd sem situr föst í fólki og á ekki við frekari rök að styðjast fremur en að allir áfengisneytendur séu ofbeldisfullar fyllibyttur. Þvert á móti eru langflestir kannabisneytendur ósköp venjulegt og ábyrgt fólk sem stundar skóla, er í vinnu, elur fjölskyldu og nýtur góðra stunda með vinum og vandamönnum án þess að valda einum né neinum óþægindum.

Kannabisneytendur eru fíklar

Öll neysla vímuefna er varasöm að einhverju leiti og endurtekin neysla getur leitt til vana og jafnvel fíknar. Það er hinsvegar staðreynd að hlutfall kannabisneytenda sem ánetjast kannabis er minna en hlutfall áfengisneytenda sem ánetjast áfengi. Kannabisefni er því minna ávanabindandi heldur en áfengi, þ.e. það eru meiri líkur á því að neylsan þróist út í ávana eða fíkn ef maður neytir áfengis (~15%) heldur en ef maður neytir kannabisefna (~9%). Þessar líkur eru svo mun hærri fyrir tóbaksneytendur (~32%).

Sú gamla mýta að kannabisneytendur leiðist út í neyslu sterkari efna á heldur ekki við rök að styðjast því það er staðreynd að langstærsti hluti þeirra sem neyta kannabisefna notar ekki önnur ólögleg vímuefni. Það að halda því fram að amfetamínneytendur og sprautufíklar byrjuðu allir í kannabisneyslu er rökleysa, því að jú þessir sömu neytendur hafa að öllum líkindum byrjað enn fyrr að neyta áfengis og tóbaks. Þannig má með sömu rökum segja að áfengi og tóbak (og í rauninni hvað sem er) leiði til neyslu sterkari efna. Að öllu jöfnu er ekki sterk fíkn í kannabisefni og kannabisneysla leiðir ekki til neyslu sterkari efna.

Kannabis veldur geðrofi

Handvaldar rannsóknir sýna tengsl milli kannabisneyslu og geðrofs og það er í sjálfu sér varhugavert og ekkert til þess að gera lítið úr. Slíkar rannsóknir eru þó ekki hafnar yfir gagnrýni og ber þar fyrst að nefna að þessar rannsóknir einblína sem mest á unga neytendur í mikilli neyslu en þar virðast þessi tengsl vera hvað mest. Hér þarf því að koma skýrt fram að lögleiðingu kannabisefna er á engan veg ætlað að hvetja ungmenni til kannabisneyslu, né neyslu á neinum öðrum vímugjöfum. Hitt þó heldur þá felur lögleiðing kannabisefna í sér regluverk sem meinar ungmennum að verða sér út um efnin með aldurstakmörkunum líkt og nú er gert með áfengi.

Í annan stað þá hefur verið bent á að geðrof þessara ungmenna hafi verið til staðar fyrir og að neyslan sem slík orsaki ekki geðrof heldur hafi hugsanlega komið henni upp á yfirborðið fyrr en ella. Í þriðja lagi hefur verið bent á að fólk með geðrof sé líklegra en annað fólk til að nota  kannabisefni oftar og þá til þess að lina sjúkdómseinkenni en það hefur verið sýnt fram á að kannabisefni geti hjálpað sumum einstaklingum að takast á við geðrofseinkenni, að minnsta kost tímabundið. Loks er vert að benda á að engin aukning hefur verið í tilfellum geðrofs og geðklofa á seinustu 40 árum þrátt fyrir mikla aukningu í kannabisneyslu sem sýnir á sannfærandi hátt að orsakatengslin þarna á milli eru engin.

    

Safnað í sarpinn

Ef við lítum á fleiri staðreyndir tengdar kannabisneyslu þá kemur enn skýrar í ljós hversu skaðlítil hún er. Í skýrlsu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá 2011 er áætlað að nær 4% allra dauðsfalla á jörðinni megi rekja til áfengisneyslu. Í CDC skýrslu frá Bandaríkjunum kemur fram að árlega deyja þar um 37.000 manns vegna ofneyslu áfengis (að undanskildum slysum þar sem áfengi kom við sögu). Í ofanálag þá hefur áfengi svo sterk eituráhrif að mikil neysla ein og sér getur leitt til dauða. Til samanburðar þá er ekki minnst á dauðsföll vegna kannabisneyslu í þessum skýrlsum og það er nær ómögulegt að deyja af of stórum skammti af kannabis.

 

Umferðarslys sem má rekja til áfengisneyslu eru mun fleiri en umferðarslys sem má rekja til kannabisneyslu og gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna fram á að jafnvel lítil neysla áfengis hafi verri áhrif á aksturshæflieika heldur en mikil neysla kannabis. Þrátt fyrir það, og það ber að taka skýrt fram, þá ætti lögleiðing kannabisefna að fela í sér samskonar viðurlög við því að keyra bíl undir áhrifum líkt og nú er gert með áfengi.

Tengsl áfengisneyslu við ofbeldisglæpi, kynferðisbrotamál og heimilisofbeldi eru ótvíræð. Slík tengsl við kannabisneyslu eru hverfandi, ef einhver. Því til stuðnings þá hefur verið sýnt fram á að heimilisofbeldi er hvað minnst á þeim heimilum þar sem kannabisefni eru notuð.

Ef við lítum svo á vímu- og fíkniefni í stærra samhengi þá hafa verið gerðar samanburðarrannsóknir sem skoða margskonar lyf og meta hættu og skaðsemi þeirra út frá mismunandi þáttum sem lúta bæði að einstaklingum sem neyta efnanna sem og hvaða áhrif þau hafa á samfélagið í heild. Þessar rannsóknir sýna að áfengi (ásamt krakk-kókaíni og heróíni) er það efni sem er hvað skaðlegast. Ofarlega á þessum lista er einnig tóbak. Fyrir miðju, eða rétt fyrir neðan miðju, situr kannabis sem mun skaðminna efni en áfengi.

Skaðsemi kannabis felst í löggjöfinni

Það er því deginum ljósara, sama hvaða mælistiku við setjum á það, að kannabisefni eru mun öruggari og skaðminni heldur en áfengi. Það er reyndar ein mælistika sem er undanskilin staðhæfingunni hér að undan: Við núverandi löggjöf veldur það lögráða einstaklingi mun meiri skaða að vera tekinn af lögreglunni með kannabisefni heldur en að vera tekinn með áfengi.

Fullorðinn einstaklingur getur gengið óáreittur með slíkt áfengismagn að það getur valdið verulegum skaða, jafnvel dauða, sé þess neytt glæfralega. Sé þessi sami einstaklingur hinsvegar með kannabisefni í fórum sínum, jafnvel í svo litlu magni að þau eru með öllu skaðlaus, getur hann átt á hættu að vera handtekinn með tilheyrandi afleiðingum sem getur valdið miklum skaða svo sem skaða á borð við mannorðsmissi, fjárhagstjón, skerta möguleika á vinnumarkaði, bann við því að stunda nám eða ferðast til Bandaríkjanna svo að fáein dæmi séu nefnd. Þannig að, nær ótvírætt, þá er einn mesti skaði sem ábyrgur almennur neytandi kannabis getur orðið fyrir vegna neyslu sinnar er sá sem orsakast við að vera tekinn af lögreglunni.

OK, áfengi er skaðlegt. En viljum við virkilega bæta við öðru skaðlegu efni?

Nú hefur verið bent á hversu röng núverandi löggjöf kannabisefna er og hvernig rök þeirra sem vilja viðhalda banninu eiga ekki við rök að styðjast með því að bera kannabisefni saman við áfengi. Slíkur samanburður fer gjarnan fyrir brjóstið á sumum sem segja að enda þótt áfengi sé skaðlegt þá réttlæti það ekki eitt né neitt í sambandi við kannabis og að slík rök séu út úr kú. Slík rök eru hinsvegar ekki úr kú heldur koma þau frá þenkjandi fólki sem vilja koma réttum upplýsingum um kannabisefni til skila á sem skiljanlegastan hátt.

Áfengi er langmest notaða vímuefnið á jörðinni. Langflestir þekkja til þess af eigin raun og er nærtækast að nota það til samanburðar. Þegar maður ber saman áfengi og kannabisefni kemur eftirfarandi í ljós: Áfengi veldur fleiri dauðsföllum en kannabisefni, áfengi orsakar fleiri sjúkdóma en kannabisefni, fíkn í áfengi er sterkari heldur en í kannabisefni, áfengi hefur meiri og verri áhrif á ökuhæfni heldur en kannabisefni, áfengi hefur sterkari tengingu við ofbeldisglæpi, kynferðisbrot og heimilisofbeldi.

Sumir taka jafnvel undir að áfengi sé skaðlegt en spyrja svo: Hvers vegna ættum við þegar við erum með hættulegt efni eins og áfengi á markaðnum að bæta við öðru hættulegu efni? Málið er að með lögleiðingu kannabisefna erum við ekki að bæta við hættulegu efni heldur erum við að bjóða fullorðnu fólki upp á valkost. Valkost sem er öruggari og skaðminni en áfengi.

Því hlýtur maður að spyrja sig: Hvers vegna er ekki í boði fyrir fullorðið fólk að neyta kannabisefna með löglegum hætti? Hvers vegna er verið að stýra fólki að áfengisneyslu þegar mun öruggari og skaðminni kostur er fyrir hendi?

Ofurstyrkur kannabisefna nútímans

Fylgjendur bannstefnunnar reyna stundum að réttlæta skoðun sína út frá því að styrkleiki THC (eitt virkasta efnið í kannabis og það efni sem leiðir til vímu) í kannabisefnum hafi aukist gífurlega á seinustu misserum og segja að það geri þau mun hættulegri og réttlæti áframhaldandi lögbann. Hár styrkleiki kannabisefna sem slíkur er þó ekki neitt til að hafa sérstakar áhyggjur af því kannabisneytendur geta auðveldlega stjórnað skammtastærðinni út frá styrk efnanna. Léttvín er sterkara en bjór á svipaðan hátt og sterk kannabisefni í dag eru sterkari em kannabisefni hippatímans. Samt er fólk ekki með áhyggjur af styrkleika léttvíns þó svo að eituráhrif áfengis séu mun meiri en eituráhrif kannabisefna.

    

Það sem er hinsvegar áhyggjuefni við hátt THC magn í kannabisefnum í dag er að þau hafa yfirleitt mjög lágt magn af CBD (annað virkt efni í kannabis, leiðir ekki til vímu en hefur ýmis önnur áhrif), en CBD hefur ýmsa kosti sem geta vegið upp sum af neikvæðu áhrifum sem geta fylgt kannabisneyslu. Enn fremur þá gegnir CBD lykilhlutverki gegn sumum sjúkdómum og einkennum hjá þeim sem nota kannabisefni í lækningaskyni. Skynsamlegasta leiðin til að stjórna bæði THC og CBD magni í kannabis, sem og að halda neytendum upplýstum um styrkleikann, er lögleiðing.

Neysla eykst með lögleiðingu

Fylgjendur bannsins halda því fram að með lögleiðingu þá muni neysla kannabisefna aukast. Það hefur þó sýnt sig að það þarf ekki að vera raunin. Þrátt fyrir að kannabisneysla sé nánast lögleg í Hollandi þá er neyslan þar minni en í mörgum nágrannalöndum þar sem kannabisefni eru ólögleg. Að sama skapi hefur neyslan í Portúgal ekki aukist eftir afglæpavæðingu þar.

Í Bandaríkjunum, þar sem í mörgum fylkjum er gengið hvað harðast fram í refsistefnunni, er neyslan meiri heldur en í Evrópu. Lágt hlutfall ungmenna neytir kannabisefna í Hollandi og í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem kannabisefni hafa verið lögleidd í lækningaskyni hefur neysla ungmenna minnkað. Þar sem lögleiðing með regluverki fæli í sér aldurstakmörk má leiða að því líkum að neysla ungmenna myndi minnka þar sem að erfiðara væri fyrir þau að nálgast efnin. Loks má ímynda sér að ef fullorðnir einstaklingar hefðu val til þess að neyta kannabisefna í stað áfengis þá gæti meira en vel verið að lögleiðing kannabisefna verði til þess að draga úr áfengisneyslu. Í ljósi þess hve miklu skaðlegri áfengisneysla er í samanburði við kannabisneyslu þá er samfélagslegur ávinningur í því að áfengisneysla minnki, jafnvel þó það væri á kostnað aukinnar kannabisneyslu.

Sýnum skynsemi

Við getum svo kórónað þessa samantekt með því að benda á þann augljósa efnahagslega ávinning sem fæst með lögleiðingu. Undir núverandi regluverki fara kannabisviðskipti fram á svörtum markaði sem veltir milljörðum á hverju ári. Með lögleiðingu væri þessum markaði komið undir skattkerfi ríkisins sem myndi skapa mörg hundruð lögleg störf  t.d. við framleiðslu, sölu og eftirlit.

Á sama tíma mætti nýta tíma og krafta lögreglunnar og dómvaldsins í þarfari verkefni en að eltast við meinlausa kannabisneytendur. Hagnaðurinn sem fengist af sölu kannabisefna væri vel til þess fallinn að nýta í mennta- og heilbrigðiskerfið, með áherslur á forvarnir í menntakerfinu og meðferðir í heilbrigðiskerfinu. Með réttum og yfirveguðum upplýsingum í stað hræðsluáróðurs og fordóma sendum við rétt skilaboð til barna og unglinga og náum bestum árangri í að koma í veg fyrir óábyrga neyslu vímuefna.

Fínir frasar

Kannabis er hættulegt og veldur geðrofi! Kannabisneytendur eru latir og detta úr skóla og vinnu! Kannabisneytendur verða fíklar og leiðast út í sterkari efni! Kannabisneytendur lifa skemur en aðrir! Lögleiðing leiðir til aukinnar neyslu! Styrkleiki kannabisefna er orðinn stórhættulegur! Þó að áfengi sé slæmt þá er engin ástæða til þess að bæta öðru hættulegu efni við!

Þetta, og fleira til, eru vel þekktar upphrópanir sem fylgjendur bannsins nota til að reyna að réttlæta skoðanir sínar varðandi kannabisbannið. Það kann að vera að þetta hljómi vel til að byrja með en við nánari ígrundun þá kemst ekkert af þessu nálægt því að geta réttlætt núverandi löggjöf varðandi kannabisefni. Þegar allt kemur til alls þá eru þetta bara fínir frasar - fínir frasar sem eru ekkert annað en síðasta úrræði þeirra sem eru orðnir uppiskroppa með rök.

Verum til fyrirmyndar

Við getum verið sammála um að vera ósammála um ýmsa hluti, eins og til dæmis hvort kíví sé gott á bragðið eða ekki. Það er hinsvegar lítið svigrúm til að vera ósammála um hvort kannabisefni ættu að vera lögleg undir sambærilegu regluverki og nú er gert með áfengi. Þeir einu sem hafa einhverra hagsmuna að gæta með því að viðhalda núverandi lögbanni á kannabisefnum eru þeir aðilar sem framleiða og selja efnin í dag sem og áfengisframleiðendur sem kæra sig ekki um samkeppni á vímuefnamarkaðinum. Viljum við halda áfram að færa fórnir til að vernda hagsmuni þessara aðila?

Einhverjir einstaklingar kæra sig ef til vill ekki um að kannabisefni verði í boði á löglegum markaði eingöngu á þeim forsendum að þeim finnist kannabisvíma óeftirsóknarverð eða að þeim finnist kannabisneytendur hreinlega ógeðslegir. Á sama tíma sjá þeir lítið gagnrýnivert við lögbundna áfengis- og tóbaksneyslu. Óskandi væri að þessir einstaklingar litu sér nær og kynntu sér þessi mál til hlýtar áður en kveðnir eru upp hleypidómar.

Höfnum fáfræði og fávisku. Spornum við fordómum. Sýnum skynsemi. Verum til fyrirmyndar. Lögleiðum kannabis.

Ítarefni og heimildir

Bækur:

•Marijuana is Safer: So Why Are We Driving People to Drink

•Drugs Without the Hot Air

Netblogg

•“Think cannabis is harmless? No, does anyone? But what about propagating drug hysteria? Is that harmless?”

Ritrýndar vísindagreinar

•Drug harms in the UK: a multicriteria decision analysis

Fyrirlestrar/Netklippur

•David Nutt: Decision making about illegal drugs: time for science to take the lead

•Retired Police Captain demolishes the War on Drugs

Heimildamyndir

•The Union: The Business Behind Getting High

•Clearing the Smoke: The Science of Cannabis

•Breaking the Taboo

•The House I Live In


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.