Lífið

Klifraði upp Perluna

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Ævar vísindamaður
Ævar vísindamaður Mynd/Lalli Sig
Ævar vísindamaður er búinn að gefa út nýja bók, Umhverfis Ísland í 30 tilraunum! Krakkasíðan spurði hann spjörunum úr.

Langaði þig alltaf að verða vísindamaður?

"Ég hef alltaf verið svakalega forvitinn."

Hvað fannst þér skemmtilegast að læra í skólanum?

"Mér fannst skemmtilegast í smíðum og íslensku. Í smíðum vegna þess að þá fékk maður að sjá hvernig hlutir eru búnir til og íslensku vegna þess að þá fékk maður að sjá hvernig orð eru búin til."

Hefurðu aldrei lent í neinu slysi þegar þú ert að gera tilraunir?

"Þegar ég var að taka upp þættina mína klifraði ég upp Perluna með ryksuguhönskum. Á leiðinni aftur niður var ég orðinn svo þreyttur í höndunum að ég missti takið – á Perlunni miðri – en sem betur fer var Hjálparsveit skáta í Reykjavík með mig í öryggislínu og bjargaði mér."

Hvað þarf maður að borða til að verða svona gáfaður?

"Ég held ég sé alls ekki gáfaðri en nokkur annar – ég er alltaf að hitta bæði krakka og fullorðið fólk sem eru miklu klárari en ég. Hins vegar finnst mér ægilega gaman að elda – enda eru það mikil vísindi – og þá sérstaklega svokallaðar armadilló-kartöflur, sem eru undirbúnar og bakaðar eftir kúnstarinnar reglum."

Eru mamma þín og pabbi aldrei pirruð á tilraununum þínum?

"Nei, ég held ekki. Ég er nefnilega afar duglegur að taka til eftir mig – sem er regla númer eitt þegar maður gerir tilraunir!"

Ef krakka langar til að verða vísindamenn þegar þau verða stór hvað eiga þau þá að gera?

"Lykillinn er að finna eitthvað sem þú hefur áhuga á og demba þér á bólakaf í það – hvort sem það heitir stærðfræði, eldflaugasmíðar eða bollubakstur. Ef þú hefur áhuga á því sem þú ert að gera verður allt miklu auðveldara."

Hver er skemmtilegasta tilraunin sem þú hefur gert?

"Í fyrra bjó ég til 700 lítra af slími og sökkti mér á bólakaf í það. Ég held að það sé uppáhaldstilraunin mín – nema þegar það þurfti að spúla mig með slöngu þegar ég kom upp úr því, auðvitað."

Hvaða tilraun í bókinni er best að byrja á ef maður hefur aldrei gert tilraun áður?

"Það er tilraun í bókinni sem heitir „Tryllta jafnvægistilraunin“ og er fullkomin fyrir nýja vísindamenn. Þú þarft ekkert nema sjálfa/n þig og smá pláss. Þetta er tilraun sem sýnir þér að það er hægara sagt en gert að halda jafnvægi þegar þú lokar augunum og hvers vegna það gerist. Prófaðu bara. Stattu á öðrum fæti með opin augun og prófaðu svo að loka þeim í smá stund. Jafnvægið fer út um gluggann!"

Hvort er skemmtilegra að vera með sjónvarpsþátt eða skrifa bók?

"Þetta er í raun svolítið líkt, því áður en þú leikur í þættinum þarftu að skrifa hann. Og eftir að þú hefur skrifað bókina ferðastu um og lest upp úr henni. Ég ætla að segja að þetta sé jafn skemmtilegt."

Verðurðu aftur í sjónvarpinu næsta vetur?

"Já, svo sannarlega! Við erum nú þegar byrjuð að taka upp nýjar og ótrúlega spennandi tilraunir. Ég ætla ekki að gefa neitt upp, en ég get þó sagt ykkur að himingeimurinn kemur við sögu í einni þeirra – í miklu návígi! Þá er ég líka þessa dagana að lesa mér til um risapöddur…"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.