Innlent

Aflétta takmörkunum á ferðum um Öskju

Atli Ísleifsson skrifar
Mikið berghlaup varð í Öskju þann 21. júlí síðastliðinn.
Mikið berghlaup varð í Öskju þann 21. júlí síðastliðinn. Vísir/Sveinn Brynjólfsson
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur aflétt takmörkunum á ferðum um Öskju. Í fréttatilkynningu segir að berghlaupið sem varð í Suðurbotnum í Öskju 21.júlí síðastliðinn hafi sýnt að ferðafólki á svæðinu kunni almennt séð að vera meiri hætta búin af völdum stórra berghlaupa og flóðbylgna en menn hafa áður gert sér skýra grein fyrir.

„Með hliðsjón af rannsóknarniðurstöðum Veðurstofu og Háskóla Íslands um hrunhættu við Suðurbotna ekki talið að sú hætta sé tilefni til að loka svæðinu við Víti í Öskju lengur en orðið er. Af þeim sökum hafa lögreglustjórinn á Húsavík og Vatnajökulsþjóðgarður í samráði við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ákveðið að aflétta þeim takmörkunum sem verið hafa á ferðum við Víti í Öskju að undanförnu.“

Í tilkynningunni er ferðamönnum þó bent á að fylgja þeim varúðarreglum sem settar hafa verið upp af svæðinu og taka mið af eftirfarandi þáttum.

„1. Varað er við hættu á flóðbylgjum í Öskjuvatni sem berghlaup niður í vatnið geta hrundið af stað og geta ógnað ferðafólki sem er nærri vatninu. Ef fólk verður vart við hrun í fjöllunum við vatnið ætti það að forða sér frá vatninu og upp í hlíðar. Flóðbylgja er 1-2 mínútur að ferðast þvert yfir vatnið.

2. Ekki eru vísbendingar um vaxandi eldvirkni í Öskju í tengslum við berghlaupið.

3. Ekki er talin aukin hætta á jarðskjálftum í Öskju í kjölfar berghlaupsins.

4. Ekki eru sjáanleg ummerki sem benda til yfirvofandi hættu á frekari berghlaupum. Við upptakasvæði berghlaupsins má sjá stalla þar sem hreyfing hefur orðið á jarðlögum sem geta hlaupið fram en ekki er unnt að segja hvort berghlaup verði þar á næstu mánuðum, árum eða áratugum. Enn fremur eru sprungur á um 30–50m breiðu svæði við jaðra berghlaupsins báðum megin. Þar gætu komið frekari hlaup sem þó yrðu að öllum líkindum minni en berghlaupið 21. júlí. Í ljósi þessa er rétt að vara við öllum ferðum um sjálft skriðusvæðið þar sem berghlaupið féll. Brotstál skriðunnar er mjög óstöðugt og þar mun hrun verða algengt næstu árin. Brún öskjunnar er einnig óstöðug víða annars staðar. Umræddir staðir eru afar fáfanir og því um litlar takmarkanir að ræða“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Ótrygg staða við Öskju

Enn hrynur eitthvað úr brotstálinu ofan við skriðuna, sem féll í Öskjuvatn, þannig að stálið er enn ótryggt.

Veruleg hætta á skriðuföllum

Enn er hætta á frekari skriðuföllum við Öskju, en skriðan sem féll á þeim slóðum síðastliðinn mánudag er ein sú stærsta sem vitað er um hér á landi að mati vísindamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×