Viðskipti innlent

Nýi Billy passar ekki með þeim gamla

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hefur IKEA selt fleiri en 50 milljónir Billy bókaskápa frá því að sala á honum hófst árið 1978.
Alls hefur IKEA selt fleiri en 50 milljónir Billy bókaskápa frá því að sala á honum hófst árið 1978. Vísir/Vilhelm
Sænski húsgagnarisinn IKEA hefur kynnt nýja Billy bókaskápa til sögunnar. Breytingarnar fela meðal annars í sér að götin til að festa hillur og hurðir eru minni en í gömlu útgáfunni og eru þær festar á annan hátt. Því er ekki hægt að nýta færanlegar hillur úr gömlum skápum í nýju útgáfunni.

Atli Már Daðason, vörustjóri hjá IKEA á Íslandi, segir í samtali við Vísi að IKEA hafi með breytingunum verið að gera Billy betri. „Það er eins og almennt er í vöruþróun. Vörur verða betri og einfaldari í framleiðslu.“

Hann segir að með breytingunum sé einnig verið að uppfæra liti. „Hvíti liturinn er orðinn hvítari til að samræmast öðrum vörulínum sem við erum að selja.“ Þá sé viðaráferðin öðruvísi. „Maður fær alvöru viðartilfinningu þegar maður kemur við skápinn.“

Atli Már segir að borunin þar sem maður setur annað hvort hillur eða hurðir hafi einnig verið breytt. „Möguleikarnir hafa aukist varðandi það hvar þú staðsetur hillur og hurðir. Ef þú ert að kaupa nýjar hurðir þá ganga þær hins vegar illa í gamla Billy bókaskápa. Þessi nýja borun er gerð til að auka sveigjanleika fyrir viðskiptavini – hvar þeir staðsetja hillur og hurðir.“

Atli Már segir því ekki hægt að nota gamlar hillur í nýja skápnum. „Þá er líka hætta á þessum litamun, sérstaklega í hvíta skápnum.“

Daniela Rogosic, fjölmiðlafulltrúa IKEA í Svíþjóð, segir gömlu og nýju skápana þó vera af sömu stærð og því vel geta staðið saman. Í viðtali við Dagens Nyheter segir Daniela að nýjar vörur IKEA fái stundum mikil viðbrögð frá viðskiptavinum og að stjórnendur fyrirtækisins hafi einnig hugað að mögulegum viðbrögðum í þessu tilviki. „Breytingin ætti þó ekki fela í sér einhver stærri vandamál fyrir þá sem eiga skápana heima. Þetta eru breytingar sem viðskiptavinir hafa óskað eftir.“

Að sögn Atla Más hafa nýju skáparnir verið að týnast inn í verslunina hér á landi síðan í byrjun júní. Hann segist ekki hafa orðið var við óánægju meðal viðskiptavina vegna breytinganna á Billy.

Óhætt er að segja að Billy bókaskápurinn hafi farið sigurför um heiminn frá því að hann var fyrst kynntur til sögunnar. Í frétt DN segir að alls hafi yfir 50 milljónir Billy bókaskápa selst frá því að IKEA hóf sölu á honum árið 1978.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×