Golf

„Viðtalið kom mér verulega á óvart“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/GVA
Sigurpáll Geir Sveinsson, formaður PGA-samtakanna á Íslandi og þjálfari Kristjáns Þórs Einarssonar, furðar sig á viðtali sem birtist við Hauk Örn Birgisson, forseta GSÍ, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Mikið hefur verið fjallað um þá ákvörðun Úlfars Jónssonar, landsliðsþjálfara, að velja ekki Kristján Þór Einarsson í landsliðið fyrir EM landsliða sem fer fram í Finnlandi í næstu viku.

Landsliðið var valið áður en Íslandsmótið í holukeppni fór fram um helgina en Kristján Þór bar þar sigur úr býtum og er nú efstur á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar þegar þremur mótum er ólokið.

„Ég virði skoðun landsliðsþjálfarans þó svo að ég sé ekki sammála henni,“ sagði Sigurpáll Geir í samtali við Vísi í dag en hann vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið.

Haukur Örn sagði í umræddu viðtali í gær að Kristján Þór uppfyllir ekki skilyrði afreksstefnu GSÍ og var Sigurpáll Geir undrandi á þeim ummælum.

„Viðtalið kom mér verulega á óvart. Ég hef leitað viðbragða hjá GSÍ því ég veit ekki hvaða kröfur það eru sem hann þarf að uppfylla,“ sagði Sigurpáll og sagðist fá svör hafa fengið við sinni fyrirspurn.

Vísir hafði einnig samband við Guðjón Karl Þórisson, formann Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ, félag Kristján Þórs. Hann sagði málið í skoðun innan félagsins og baðst undan viðtali á meðan svo væri. Kristján Þór gerði slíkt hið sama.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×