Viðskipti innlent

Búrfell bara með íslenskt beikon

Heimir Már Pétursson skrifar
Minni kolvetnisneysla Íslendinga hefur aukið eftirspurn eftir beikoni. Mikið flutt inn af svínakjöti en Búrfell framleiðir eingöngu íslenskt beikon.
Minni kolvetnisneysla Íslendinga hefur aukið eftirspurn eftir beikoni. Mikið flutt inn af svínakjöti en Búrfell framleiðir eingöngu íslenskt beikon. vísir/gva
Um fjögur hundruð og fjörtíu tonn af svínakjöti eru flutt inn til landsins á síðasta ári mest megnis vegna aukinnar eftirspurnar eftir beikoni. Varan er ekki alltaf upprunamerkt og því vita neytendur ekki hvort þeir eru að snæða íslenskt eða útlent beikon.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að í fyrra hafi verið flutt inn um 440 tonn af svínakjöti, þar af um 300 tonn af svínasíðum sem farið hafi í framleiðslu á beikoni. Íslenskir svínakjötsframleiðendur nái ekki að anna eftirspurn eftir beikoni en til að gera það þyrfti að slátra um fimmtíu þúsund fleiri gripum, að sögn Sveins Vilbergs Jónssonar framkvæmdastjóra Matfugls sem rekur Ali kjötvinnsluna. En þá yrðu vandræði að losna við aðrar afurður svínanna.

Í grein Fréttablaðsins kemur fram að Búrfell, sem er í eigu Sláturfélags Suðurlands,  upprunamerki ekki sitt beikon. Steinþór Skúlason forstjóri SS segir einfalda skýringu á þessu.

Er eitthvað af ykkar kjöti erlent?

„Nei, við erum með íslenskar svínasíður í Búrfells beikoni og það er nú bara þannig að við erum að klára að forprenta miða þannig að það verður mjög fljótlega komið upprunaland á Búrfells beikonið,“ segir Steinþór.

Þannig að í framtíðinni verður tekið fram að Búrfells beikonið sé íslenskt. Steinþór segir að SS hafi flutt inn lítið magn af svínakjöti fyrir tveimur árum en ekki gert það síðan en ef til þess kæmi aftur yrði það upprunamerkt.

Hvernig hafið þið sloppið við að kaupa inn beikon frá útlöndum?

„Við kaupum auðvitað af bændum sjálfum og svo kaupum við viðbót af öðrum sláturleyfishöfum eins og okkur vantar. Þannig að þetta fer líka eftir söluhlutföllum hvers aðila. Kannski erum við með meiri sölu í öðrum skrokkhlutum en síðum t.d.,“ segir Steinþór.

Meginskýringin á aukinni neyslu er fjölgun ferðamanna og aukin neysla Íslendinga.

„Það sem er að gerast og er merkilegt er að Íslendingar taka hlutina með trompi. Og þetta að fara úr lágri fitu í lágkolvetni í mataræði er að sýna mikla neysluaukningu í vörum eins og beikoni, þurrpylsum, spægipylsu og öðru slíku. Þannig að þetta er að skapa þessa eftirspurn,“ segir Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×