Lífið

Metnaðarfyllsta uppfærsla Stuðmanna

Baldvin Þormóðsson skrifar
Hrafn Gunnlaugsson sá um að stýra þriggja manna teymi sem gerði plakötin fyrir Tívolíið.
Hrafn Gunnlaugsson sá um að stýra þriggja manna teymi sem gerði plakötin fyrir Tívolíið. mynd/einkasafn
Mér er sagt að þetta sé metnaðarfyllsta uppfærsla Stuðmanna til þessa, segir Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður en hljómsveitin undirbýr stórtónleika í Hörpu byggða á breiðskífunni Tívolí.

Þarna var sleginn óvenjulegur tónn með því að gera gamla skemmtigarðinn í Vatnsmýrinni að einhverskonar spegilmynd samfélagsins á seinni hluta síðustu aldar, segir Jakob en Tívolíið í Vatnsmýri var á sínum tíma vinsælasta afþreyingarsvæði fólks í Reykjavík.

Frímann flugkappi var táknmynd bandaríkjahers, Hveitibjörn var táknmynd pólitískrar spillingar, Hr. Reykjavík samnefnari íslenska einfeldningsins og Fjallkonan reiðubúin að fórna meydómi sínum, segir Jakob og bætir því við að á tónleikunum sem verða í haust munu mun fleiri persónur bætast við flóruna.

Í nýju uppfærslunni þá er spegilmyndin uppfærð til 21. aldarinnar, segir Stuðmaðurinn. Lykilpersónurnar eru þær sömu en það fjölgar mjög í furðufuglabúrinu. Ætli það verði ekki á þriðja tug listamanna á sviðinu á einum og sama tímanum.

Jakob segir það hafa lengi brunnið á hljómsveitarmeðlimum að halda þessa tónleika en árið 2014 hafi verið valið þar sem það markar 40 ára útgáfusögu Stuðmanna.

Miðasala hefst í dag og segir Jakob það vera til þess að fólk geti búið sig andlega undir tónleikanna. ,,Það er ekki hægt að hella sjóðheitri tívolísúpu yfir heila þjóð án nokkurrar viðvörunar eða aðdraganda,'' segir Jakob Frímann. ,,Það eru nú einkunnarorð sveitarinnar að Stuðmenn vilja engan særa.''

Miða má nálgast á heimasíðu midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.