Skoðun

Hæstu fjölskylduskattarnir eru í Garðabæ

Snævar Sigurðsson skrifar
Garðabær hefur upp á margt að bjóða sem gerir hann að góðum stað að búa á. Eitt vekur þó athygli - að í Garðabæ eru hæstu “fjölskylduskattar” á Íslandi. Þar á ég við leikskólagjöldin sem eru gjöld (skattar) sem leggjast eingöngu á barnafjölskyldur.

Þegar þetta er rætt við núverandi meirihluta í bæjarstjórn þá hefur svarið verið að Garðabær sé svo frábær enda sé þar “lægsta útsvarið á höfuðborgarsvæðinu”. Sem er einskonar lægsta mögulega markmið sem hægt er að stefna á. Það er ekki markmið í sjálfu sér að vera með lægsta útsvarshlutfallið þó það sé ágætt. Frekar ætti metnaðarfullt markmið að byggja á að boðið sé upp á bestu þjónustuna með sem minnstum tilkostnaði.

Ég nefni hér einfalt dæmi um hvernig skattastefna Garðabæjar kemur sér illa fyrir barnafjölskyldur. "Lægsta útsvarið á höfuðborgarsvæðinu" er 13,70% í Garðabæ miðað við 14,52% í Reykavík (munar 0.82%). Miðað við 600.000 mánaðarlaun eru það 4.625 kr. meira i vasann í Garðabæ eftir skatt. En fyrir eitt barn á leikskóla borgum við 9.280 kr. meira í Garðabæ á mánuði í leikskólagjöld og fæðisgjald, miðað við Reykjavík. Þannig þurfa heimili með eitt leikskólabarn að hafa meira en 1,2 miljónir á mánuði til að þau hafi ánægu af "lægsta útsvarinu á höfuðborgarsvæðinu". Allar barnafjölskyldur sem hafa lægri heimilistekjur koma illa út úr þessum samanburði við Reykjavík.

Það væri kannski réttlætanlegt að borga hærri leikskólagjöld ef við myndum borga starfsfólki leikskólanna betri laun en í öðrum sveitarfélögum sem ég held að sé ekki staðan. Að minnsta kosti fá þessar stéttir smánarlega lítið borgað fyrir sína frábæru vinnu, sem sést á því hve erfitt er að manna leikskólana með faglærðu starfsfólki og fá dagforeldra til starfa.

Ég legg til að Garðabær einbeiti sér að því að verða besti bærinn fyrir alla, líka barnafjölskyldur og lækki leikskólagjöldin öllum til hagsbóta. Þetta mætti auðveldlega fjármagna án hækkunar á útsvari ef vilji væri fyrir því að hagræða lítillega í rekstrinum annars staðar.




Skoðun

Sjá meira


×