Innlent

Fleiri hlynntir veiðum en á móti þeim

Mun fleiri Íslendingar eru hlynntir veiðum á langreyði en á móti þeim. Þó er andstaðan meiri en í fyrra, og mest er hún hjá kjósendum Vinstri grænna.  

Hvalveiðar Íslendinga hafa verið mikið í deiglunni síðustu misseri. Það vakti til að mynda mikla athygli þegar Barack Obama Bandaríkjafoseti gagnrýndi veiðarnar harðlega fyrr í mánuðinum og sagðist ætla að endurskoða samskipti ríkjanna í ljósi þeirra.  

Í nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins var spurt hvort fólk væri hlynnt eða andvígt veiðum á langreyði.  Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46% vera frekar eða mjög hlynnt veiðunum, en 24% sögðust vera frekar eða mjög andvíg.

Færri eru hlynntir veiðunum en í fyrra, en þá voru það 57% landsmanna. 18,5% voru andvígir.

Afstaða kynjanna vekur athygli. 52% karla eru frekar eða mjög hlynntir veiðum en aðeins 39% kvenna. Ekki var munur á afstöðu eftir aldri.

Framsóknarmenn eru hlynntastir veiðum á langreyði eða um 62%. 56% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru mjög eða frekar hlynnt veiðunum og 46% kjósenda Pírata.

33% kjósenda Samfylkingarinnar eru hlynnt veiðunum og 30% kjósenda Bjartrar framtíðar. Andstaðan er þó mest meðal kjósenda Vinstri grænna, en aðeins 24% þeirra eru hlynnt veiðunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×