Skoðun

Ekki benda á mig

Lára Óskardóttir skrifar
Það er þekkt að fólk spyrni við fótum, er breytingar á þeirra eigin starfsumhverfi ber á góma. Fagmaður, sem hefur tileinkað sér ákveðnar leiðir að settu marki, á til að verja “sitt” finni hann að þrýst sé á hann að gera hlutina öðruvísi.

Þrátt fyrir þessa mannlegu mótspyrni eru breytingar það eina sem menn geta gengið út frá sem vísu (Gary Hamel).

Annað sem er alveg borðleggjandi í þessu lífi er dauðinn. Ástæða þess að ég kýs að ræða stöðu grunnskólans út frá þessum tveim óumflýjanlegu þáttum lífins er; grunnskólinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann er komin að þolmörkum.

Hann hefur ekki þróast í takt við tímann og ber ekki nafn með rentu lengur. Honum ber sem stofnun að standa undir því nafni að vera grunnstoð menntunar.

Það má fara í bendingaleik en það mun ekki færa okkur neina laus. Að kenna kjaramálum kennara um, menntavísindasviði, borgarfulltrúum, foreldrum... eða hverju sem er bætir ekki stöðuna, þvert á móti.

Við þekkjum merkin er kvöldar í lífi okkar mannanna. Vísindin og reynslan hefur fært okkur ýmsa vitneskju í þá veru. Aftur á móti eru merki um endalok, fyrirbæra eins og skólakerfis ekki ljós fyrr en allt er komið í kalda kol og jafnvel ekki þá.

Undanfarið hefur staða grunnskólans kallað fram spurningar. Ein gæti verið; erum við komin á endastöð þess skólakerfis sem stofnað var til 1907? Mörgum þykir eflaust full djúpt í árina tekið hér.

Ég tel að staðan eins og hún er í dag stærra mál en kjarabarátta, íhaldsöm aðferðafræði, staða fólks í kerfinu eða vinsældarkosningar ráðamanna.

Samfélaginu er misboðið eftir niðurstöðu síðustu PISA könnunnar. Við erum metnaðarfull þjóð sem líkar ekki við að vera eftirbátar annarra.

Við erum komin að ellimörkum þessa kerfis sem ólíkt mönnum kann ekki að deyja. Þess vegna er hægt að hjakka í sama farinu endalaust.

Horfa í allar aðrar áttir en þær sem krefjast einhvers af okkur, því það getur reynst svo erfitt að taka á málunum. Til að snúa við blaðinu, þarf þor, ákveðni og festu.

Sem krefst samvinnu kennara, skólastjórnenda, foreldra og ráðamanna. Þannig tel ég okkur hafa tekið á unglingadrykkju og þannig tel ég okkur geta byggt framúrskarandi grunnskóla.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×