Formúla 1

Engar liðsskipanir hjá Mercedes: Hamilton og Rosberg fá að berjast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nico Rosberg og Lewis Hamilton þurfa ekki að víkja.
Nico Rosberg og Lewis Hamilton þurfa ekki að víkja. Vísir/getty
Lewis Hamilton vann Barein-kappaksturinn í Formúlu 1 á sunnudaginn og liðsfélagi hans, Nico Rosberg, varð annar eftir magnaða keppni þeirra tveggja um sigurinn.

Mercedes-bíllinn kemur langbest undan vetri og má fastlega reikna með þeim tveimur í baráttunni um sigurinn í fleiri keppnum. Og þeir munu fá að berjast um hvern einasta sigur. Þeim verður aldrei gert að víkja fyrir hvorum öðrum.

Þetta staðfesti annar yfirmanna Mercedes-liðsins, PaddyLowe, eftir keppnina í Barein aðspurður út í samskipti keppnisstjóranna við ökuþórana en í talstöðinni var þeim sagt að lenda ekki í árekstri við hvorn annan.

„Það var engin ástæða til að segja það ekki,“ segir Lowe í samtali við BBC en liðsfélagarnir voru margsinnis hlið við hlið í brautinni og voru stundum ansi nálægt því að eyðileggja fyrir hvorum öðrum.

„Við vildum bara minna þá á að skila bílunum heilum í mark. Þetta tengdist ekkert taktík. Þetta var bara vingjarnleg áminning.“

Hinn yfirmaður Mercedes-liðsins, Toto Wolff, var í skýjunum með keppnina og hversu flottir Rosberg og Hamilton voru í baráttunni þrátt fyrir að vera liðsfélagar.

„Að búa til svona sýningu án þess að stofna bílunum í hættu, það gerist ekki betra en það. Þetta var frábær auglýsing fyrir Formúlu 1 á sama tíma og menn keppast við að tala Formúluna niður,“ segir Toto Wolff.


Tengdar fréttir

Lewis Hamilton vann í Bahrain

Lewis Hamilton á Mercedes vann í Bahrain, liðsfélagi hans, Nico Rosberg varð annar. Sergio Perez á Force India varð þriðji.

Bílskúrinn: Hvað er að frétta eftir Bahrain?

Breski ökumaðurinn Lewis Hamilton á Mercedes vann keppnina í Bahrain, liðsfélagi hans, Nico Rosberg varð annar og Sergio Perez á Force India varð þriðji. Við förum yfir málin í Bílskúrnum, léttu hliðinni á Formúlu 1 hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×