Skoðun

Þitt atkvæði skiptir máli

Auður Finnbogadóttir skrifar
Blað er brotið í sögu íslenskra lífeyrissjóða þessa dagana en þá fer fram fyrsta rafræna stjórnarkjör  lífeyrissjóðs hérlendis sem vitað er um, stjórnarkjör hjá  Lífeyrissjóði verkfræðinga, Lífsverki. 

Í stjórnarkjörinu, sem ætlað er að endurspegla gagnsæi og beina aðkomu sjóðfélaga, gildir einföld regla; hver sjóðfélagi hefur eitt atkvæði í  stjórnarkjöri.

Á síðasta aðalfundi sjóðsins í maí 2013 samþykktu sjóðfélagar að breyta samþykktum sjóðsins á þann veg að taka upp rafrænt stjórnarkjör á aðalmönnum í stjórn.  Fimm menn skipa stjórn sjóðsins og kosið er um tvö stjórnarsæti að þessu sinni. 

Fjögur framboð bárust og má sjá kynningar frambjóðenda á heimasíðu sjóðsins, www.lifsverk.is, og á sjóðfélagagátt. 

Frambjóðendur eru í stafrófsröð; Bjarki A. Brynjarsson, Brynja Baldursdóttir, Sigþór Sigurðsson og Þrándur S. Ólafsson. Rafrænt stjórnarkjör fer þannig fram að sjóðfélagar skrá sig inn á sjóðfélagagátt í gegnum heimasíðu sjóðsins.  Lykilorð má finna í heimabanka hvers sjóðfélaga. 

Lífsverk er blandaður lífeyrissjóður sem starfrækir samtryggingardeild og þrjár leiðir í séreignardeild. Af 12% skylduframlagi í lífeyrissjóðinn fer 10% til samtryggingardeildar en 2% til séreignardeildar nema sérstaklega sé óskað eftir að allt skylduframlagið skuli fara í samtryggingardeildina. Einnig er hægt að gera samning um viðbótarsparnað við sjóðinn og velja á milli þriggja ávöxtunarleiða. 

Rafrænt fyrirkomulag stjórnarkjörs eykur verulega aðgengi sjóðfélaga sem búa utan höfuðborgarsvæðis að þátttöku í stjórnarkjöri og stuðlar enn frekar að lýðræðislegri niðurstöðu. Það auðveldar sjóðfélögum að gæta hagsmuna sinna sem felast í virði þeirra réttinda sem þeir hafa safnað sér með greiðslu iðgjalda til sjóðsins. 

Rafrænt stjórnarkjör er einföld og þægileg leið fyrir sjóðfélaga til þess að nýta atkvæðisrétt sinn og hafa þannig lýðræðisleg áhrif á starfsemi síns lífeyrissjóðs.  Sjóðfélagar eru hvattir til að skrá sig inná sjóðfélagagáttina og taka þátt í þessari frumraun meðal lífeyrissjóða. Þitt atkvæði skiptir máli.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×