Skoðun

Námsráðgjafar skora á stjórnvöld

Helga Helgadóttir og Ágústa Björnsdóttir skrifar
Félag náms- og starfsráðgjafa (FNS) skorar á stjórnvöld og samninganefnd Félags framhaldsskólakennara (FF) að leita allra leiða til að leysa yfirstandandi kjaradeilu. Það er almannahagur að deilan leysist farsællega sem allra fyrst.

Náms- og starfsráðgjafar sem starfa í framhaldsskólum eru í FF og  taka því þátt í verkfallsaðgerðum. Mikil umræða hefur skapast um störf kennara, vinnuskilyrði þeirra, kjör og endalausar hagræðingaraðgerðir sem bitnað hafa hart á framhaldsskólunum.

Okkar félagsmenn, náms – og starfsráðgjafar, hafa svo sannarlega orðið áþreifanlega varir við þann harða niðurskurð sem orðið hefur á þjónustu og stuðningi við nemendur í framhaldsskólum landsins og fundið fyrir því álagi sem þessu fylgir.  Æskilegt er að fjöldi nemenda á bak við hvern ráðgjafa í framhaldsskólum fari ekki yfir 300 nemendur en í flestum framhaldsskólum er raunin allt önnur og oft eru tvöfalt eða fleiri nemendur á hvern ráðgjafa. Oftar en ekki bera náms- og starfsráðgjafar hitann og þungann af stuðningskerfi skólanna þar sem fjölbreyttur nemendahópur kallar á misjafnar lausnir og stuðning.

Mikil umræða hefur skapast undanfarið um háa tíðni brotthvarfs úr framhaldsskólum hér á landi og telja margir að aukin ráðgjöf um nám og störf sé lykilþáttur í því að bæta úr þeim vanda. Þessu erum við auðvitað sammála, en til að hægt sé að veita þessa mikilvægu þjónustu þarf að huga að fjölda nemenda á bak við hvern ráðgjafa.  

Nauðsynlegt er að auka vægi náms- og starfsfræðslu á öllum skólastigum, en til að það megi takast þarf að búa betur að ráðgjöfum og skapa þeim viðunandi starfskjör og skilyrði.

Ágústa Björnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi..
Sýnt hefur verið fram á að nauðsynlegt sé að ungt fólk geri sér betur grein fyrir tilgangi menntunar og hafi betri upplýsingar um starfsmöguleika sína og atvinnulífið í heild. Til að hægt sé að tengja þetta tvennt saman er nauðsynlegt að byggja á traustum grunni upplýsinga um nám og störf. Slíkur gagnagrunnur er ekki til staðar í dag en myndi skipta sköpum. Þar væri hægt að tengja saman upplýsingar um nám og vinnumarkað líkt og aðrar þjóðir hafa gert með góðum árangri.

Frá því í september 2012 hefur SÆNS, Sérfræðisetur um ævilanga náms – og starfsráðgjöf, unnið að því í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins að búa til slíkan gagnagrunn þar sem hægt væri að finna upplýsingar um nám og störf hér á landi á einum stað. Notendur gagnagrunnsins áttu einnig að hafa aðgang að könnunum um leikni og áhuga og tengja þær upplýsingar við lýsingar á námi og störfum og brúa þannig bilið á milli hæfni og áhuga við gagnagrunn um störf og nám.

Þetta mjög svo metnaðarfulla verkefni var fjármagnað með svokölluðum IPA styrk sem nú hefur verið afturkallaður. Þessi brúarsmíði á milli einstaklinga og atvinnulífs er rétt svo hálfnuð. Það skiptir sköpum að stjórnvöld átti sig á hversu nauðsynlegur slíkur gagnagrunnur er og tryggi fjármagn til að hægt sé að ljúka verkinu.

Náms– og starfsráðgjafi er lögverndað starfsheiti og samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á náms- og starfsráðgjöf.

Félagar í FNS skora hér með á stjórnvöld að tryggja framkvæmd laganna með betri starfsskilyrðum og kjörum fyrir náms- og starfsráðgjafa sem starfa í íslensku skólakerfi.

F.h. stjórnar FNS

Helga Helgadóttir og Ágústa Björnsdóttir

Náms- og starfsráðgjafar




Skoðun

Sjá meira


×