Viðskipti innlent

Áætlun um afnám hafta ekki tímabær

Haraldur Guðmundsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir, nefndarmaður í peningastefnunefnd bankans, sátu fyrir svörum í gær.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir, nefndarmaður í peningastefnunefnd bankans, sátu fyrir svörum í gær. Vísir/GVA
Stjórnvöld eiga ekki að birta endurskoðaða og tímasetta áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrr en niðurstaða um uppgjör á búum föllnu bankanna liggur fyrir. Innihald áætlunarinnar veltur á uppgjörinu og birting hennar kynni að gagnast kröfuhöfum bankanna.

Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær þegar hann svaraði spurningum Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns og formanns Bjartrar framtíðar. Guðmundur hafði þá meðal annars spurt hvort Seðlabankinn teldi að vinna samkvæmt áætlunum um afnám gjaldeyrishafta gengi vel.

„Ég held að það sé mikilvægt að allir hafi það í huga að þetta er mjög stórt og flókið mál og öfugt við það sem við vorum að ræða hér varðandi peningastefnuna. Ef við gerum einhver smá mistök þar þá er hægt að leiðrétta þau á næsta fundi, en þarna fáum við bara eitt skot og það verður að heppnast,“ sagði Már.

Hann sagði ákveðinn „strúktúr í gangi“ varðandi afnám haftanna, bæði innan stjórnsýslunnar og í samvinnu hennar og Seðlabankans.

„Þetta er að mínu mati allt í mjög eðlilegum gangi,“ sagði Már.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, spurði á fundinum hversu lengi væri hægt að búa við það að aðgerðaáætlun um losun gjaldeyrishafta „væri haldið leyndri“. Steingrímur vísaði þar í ræðu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í Valhöll þann 25. febrúar síðastliðinn, þar sem ráðherra sagði að áætlun um afnám gjaldeyrishafta hefði verið virkjuð í haust.

„Ég býst við því að fjármálaráðherra, þó ég þurfi ekki að tala fyrir hans hönd, hafi meint það að þessi strúktúr, sem er að vinna í þessu, hann var settur á fót í haust en það eru engar framkvæmdir sem hafa átt sér stað ennþá, sem betur fer því þetta verður allt að vera mjög vel undirbúið,“ sagði Már.

„Það er líka mikilvægt varðandi það hvernig þessi bú verða gerð upp og hvaða áhrif það hefur á höftin, það er þess eðlis að ég hef ekki séð það fyrir mér að það sé hægt að birta um það einhverja nákvæma áætlun, svipað eins og bandamenn hefðu birt í BBC áætlun sína um innrás sína í Normandí,“ sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×