Innlent

„Tekist á um hagsmuni“

Þorsteinn fjallaði um ESB og EFTA-samninginn.
Þorsteinn fjallaði um ESB og EFTA-samninginn. Vísir/GVA
„Hvað er að því að íslensk fyrirtæki hafi sama aðgang að mörkuðum og erlendir keppninautar?“ spurði Þorsteinn Pálsson, fyrrum forsætisráðherra, í ræðu sinni á Iðnþingi sem hann hélt rétt í þessu. 

Þorsteinn fjallaði um Evrópumálin og hagsmuni ákveðinna stétta í deilunni um hvort Ísland eigi að ganga í ESB.

Þorsteinn spurði ýmissa spurninga í ræðunni:

„Hvað er að því að [íslensk fyrirtæki] greiði álíka vexti [og fyrirtæki í Evrópusambandslöndum] ?

Hvað er að því að þau geti gert áætlanir í sama gjaldmiðli?

Hvað er að því að þau geti fengið fjárfestingarfé erlendis frá?

Hvað er að því að launafólk á Íslandi njóti sama afkomuöryggis og launamenn þeirra

ríkja sem njóta sveifluminni gjaldmiðla?

Hvað er að því að lifeyrisspanaður landsmanna verði ávaxtaður í traustari mynt en íslenskri krónu?

Auðvitað er ekkert að þessum óskum. Enginn svarar heldur á þann veg.“

Hagsmunir takast á



Þorsteinn sagði deiluna um ESB markast af hagsmunum:

„En hér er tekist á um hagsmuni. Leyfum góðum og gildum hagsmunum að takast á. Forðumst hitt að leyfa hagsmunum eins að takmarka hagsmuni annars. Lofum afli hagsmunatogstreitunnar og framfaraviljans að leysast úr læðingi.

Sýnum það stolt og þann metnað sem þörf er á til að starfa með öðrum þjóðum og semja um gagnkvæma hagsmuni þegar þess er kostur.

Gefumst aldrei upp fyrir fram.

Er ekki í raun og veru auðvelt að sameinast um þetta? Síðustu dagar hafa sýnt að umræðan um þetta stóra viðfangsefni er föst í þrætum um formsatrið, og í skotgrafahernaði stjórnmálamanna um það álit sem þeir hafa hver á öðrum.“

EFTA-samningurinn

Þorsteinn vék einnig orðum sínum að EFTA-samningnum:

Þegar stjórnvöld ákváðu að sækja um aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu á áttunda áratug síðustu aldar var í mörg horn að líta. Margir horfðu ekki á viðfangsefnið frá víðara sjónarhorni en svo, að það væri hlutverk sjávarútvegsins að afla gjaldeyris, iðnaðarins að spara hann og veslunarinnar að eyða honum.

Ein stærsta grýlan í umræðunni var sú framtíðarsýn að bakaraiðnin myndi hverfa og landið sökkva niður á hafsbotn innfluttra tertubotna. Þetta töldu ýmsir sig hafa sannað með útreikningum. Fylling tímans færði okkur aftur á móti samkeppnishæfa, framfarasinnaða og blómstrandi iðngrein.

En það voru fleiri ljón á veginum. Margir iðnrekendur sáu ekki hvernig landið fengi þrifist án þess að þeir sjálfir nytu tollverndar. Svo var hitt að Fríverslunarsamtökin snerust einvörðungu um iðnað. Okkar stóru hagsmunir voru fríverslun með fisk.

Ef metnaður forystumanna ríkisstjórnarinnar á þeim tíma hefði verið lítill og sjálfstraustið minna hefðu þeir væntanlega sagt við þjóðina: Þetta er ekki hægt.

Þarna eru þjóðir sem við eigum í stríði við vegna útfærslu landhelginnar. Þær munu aldrei fallast á íslenska sérhagsmuni vegna sjávarútvegsins,sem regluverk þeirra nær ekki einu sinni til. Við skulum því sitja heima með hendur í skauti.

Ræðuna í heild sinni má nálgast hér að neðan í viðhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×