Innlent

Námsmenn mótmæla á Austurvelli á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Austurvelli.
Frá Austurvelli. VISIR/GVA
Allar námsmannahreyfingar á Íslandi boða til samstöðufundar á morgun þriðjudag og hefst fundurinn klukkan 15:00.

Markmiðið með fundinum er að sýna samstöðu gegn þeim niðurskurði og kjaraskerðingum sem íslenskir námsmenn hafa mátt þola síðustu ár, er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Á Íslandi eru námsmenn ekki forréttindahópur, heldur lágstétt. Lágstétt sem hefur þurft að þola síendurteknar skerðingar þrátt fyrir að vera nauðsynleg samfélaginu,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Þrjár framsögur verða fluttar á fundinum;

Fyrst tekur til máls María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Því næst stígur Anna Marsibil Clausen, formaður Landssambands íslenskra stúdenta í pontu.

Síðustu ræðu fundarins flytur Laufey María Jóhannsdóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.



Að ræðum loknum taka við tónlistaratriði sem auglýst verð þegar nær dregur. Ennfremur verða veitingar á boðstólnum.

Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 650 manns boðað komu sína á fundinn á morgun.

Eru þetta önnur mótmælin sem fara fram á Austurvelli í vikunni en eins og Vísir hefur áður greint frá verður afturköllun aðildarviðræðna við Evrópusambandið mótmælt þar í dag.

Í auglýsingu fyrir viðburðinn eru reifaðar helstu ástæðurnar fyrir samstöðufundinum sem eru sem hér segir:

* LÍN stefnir að því að vega að jafnrétti og jöfnum tækifærum til náms. 



* Niðurskurður til menntamála hefur verið viðvarandi nú í sex ár. Það bitnar á gæðum náms og kennslu og hefur langvarandi áhrif á aðstæður námsmanna. 

* Námsframvindukröfur LÍN verða hækkaðar í 22 einingar úr 18 einingum að öllu óbreyttu. Það þýðir að námslán um 2000 námsmanna verða í ólestri.

* Frítekjumörk námslána hafa verið 750.000 krónur á ári síðan 2009. Þau hafa ekki hækkað eftir verðlagi og ættu nú að vera að minnsta kosti 940.000 krónur. Það sýnir að námsmenn hafa tekið á sig gríðarlegar launaskerðingar síðustu ár. 

* Námsmenn í HÍ eru skattlagðir sérstaklega þar sem skrásetningargjöld í háskóla eru hækkuð, nú annað árið í röð, og peningurinn rennur ekki til háskólans. Aðeins 39 milljónir af 180 renna til HÍ. Hækkun skrásetningargjalda hafa áhrif á alla háskóla á Íslandi. 

* Grunnframfærsla LÍN er 144.000 krónur á mánuði og er ekki í takt við önnur neysluviðmið. 

* Verðlag í landinu hefur einnig áhrif á kjör námsmanna. Með því er sífellt verið að seilast í vasa þeirra án þess að kjör vænkist á móti. 

* Húsnæðismál námsmanna eru í lamasessi. 

* Námsmannakort Strætó hefur hækkað um 100% á tveimur árum. 

* Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framþróun íslensks samfélags að það teljist fýsilegur kostur að mennta sig og vera námsmaður. 

*Óháð því hvort þú ert framhalsskólanemi, háskólanemi eða almennur þjóðfélagsþegn; við hljótum að sammælast um að fjárfesting í menntun og mannauði sé ein mikilvægasta fjárfesting samfélagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×