Skoðun

Nei ráðherra

Björg Bjarnadóttir skrifar
Kæri Illugi.

Þú hefur farið mikinn og tjáð þig um kjaradeilu framhaldsskólans í fjölmiðlum síðustu daga. Mér finnst þú stinga höfðinu í sandinn, einfalda málin og neita að skoða þær staðreyndir sem liggja til grundvallar áherslum kennara. Þú hefur ekki farið leynt  með áherslur þínar varðandi styttingu náms til stúdentsprófs. Gott og vel – það er þín pólitíska sýn sem þú sem fagráðherra fylgir væntanlega eftir, en eiga þær endilega heima í þessari umræðu?

Svarið er NEI.  Þessi umræða nú snýst ekki um kerfisbreytingar í skólakerfinu, enda hefur þú sjálfur sagt að þeirra sé ekki að vænta alveg í bráð. Þessar umræður nú snúast um að ná þarf samkomulagi um að leiðrétta laun framhaldsskólakennara á næstu misserum og leiðrétta þar með það misræmi sem orðið hefur í launaþróun þeirra og annarra sambærilegra sérfræðinga bæði á opinberum og almennum markaði. Sá munur verður ekki útskýrður með efnahagshruninu einu saman því það setti mark sitt á allar stofnanir og vinnustaði hér á landi. Það er ólíðandi að einstakir hópar sitji eftir þegar allir hafa tekið á sig byrðarnar.

Það þarf að endurskoða skiptingu þjóðartekna og ná sátt um að tími sé kominn til að hlúa að menntakerfinu sem er ein allra mikilvægasta grunnstoð velferðarkerfisins. Laun og starfskjör kennara og nýliðun í stéttinni skipta þar miklu máli. Um það hljóta allir að vera sammála. Þetta verður að gera áður en hægt er að taka upp kjarasamningakerfi að norrænni fyrirmynd, sem í stuttu máli þýðir að metið sé hvað atvinnulífið og samfélagið beri og að allir fái síðan sömu launahækkanir óháð launastöðu hvers hóps fyrir sig. Það er ekki hægt að sjá neitt réttlæti í því.

Þegar búið er að jafna laun framhaldsskólakennara við sambærilegar sérfræðistéttir þá fyrst getur þú reynt að ná sátt um kerfisbreytingar í framhaldsskólum. Eins og þú segir sjálfur þá er það seinni tíma mál. Mikið yrði það jákvætt ef sú umræða myndi ekki snúast fyrst og fremst um sparnað og hagræðingu í skólakerfinu, heldur um það að einblína á þarfir nemenda og skapa þeim fjölbreyttara námsval og aukinn stuðning í námi. Gott menntakerfi er kostnaðarsamt, en þeim peningum - hverri einustu krónu er vel varið.

Þjóðarsátt um menntun er brýn og þarf að ná til alls samfélagsins. Kennarar á öllum skólastigum/skólagerðum kalla eftir henni.

Björg Bjarnadóttir varaformaður KÍ




Skoðun

Sjá meira


×