Skoðun

Vertu bara þú sjálf/ur

Rúna Magnúsdóttir skrifar
Hljómar afskaplega einfalt og rökrétt ekki satt? Bara slappa af og vera þú? Málið dautt eða hvað? Þessi algengi frasi er, eins og svo ótal margt í lífinu, eitthvað sem við vitum öll að við eigum að gera, en gerum ekki. Eða eins og segir á enskri tungu: „Common sense isn‘t always common practise.“ Við vitum að þetta ættum við vissulega að gera, vera við sjálf. En hversu mörg okkar vita í raun hver við erum? Hvar í skólakerfinu fáum við tækifæri til að uppgötva hver við sem einstaklingar erum? Hvað við viljum standa fyrir í lífi og starfi? Hvar fáum við tækifæri til að skila og uppgötva okkar eigin persónuleg gildi? Hvað skiptir okkur máli og hvað engu máli? Já, þetta eru allt ósköp miklar grundvallarspurningar. En segjum sem svo að það væri jafn sjálfsagt fyrir einstakling í íslensku samfélagi að eiga svör við þessum spurningum eins og okkur finnst nauðsynlegt að unglingar í dag nái góðum einkunnum í íslensku, stærðfræði og ensku til að halda áfram för sinni inn í framhaldsskólana. Hverju myndi það breyta? Hvaða skóli yrði vinsælasti skólinn þegar nemendur hefðu sterkari tengingu við sjálfa sig? Hvað gæfi það atvinnulífinu að geta valið inn á vinnustaðina fólk sem deildi sömu gildum í lífinu og fyrirtækin? Hvaða áhrif hefði það á fyrirtækjamenninguna, starfsánægjuna?

Ógleymanlegur dagur

Á þjóðfundi 2009 tók hópur fólks úr atvinnulífinu sig saman, skipulagði og framkvæmdi einn ógleymanlegasta dag í lífi margra. Dag þar sem þverskurður fólks úr samfélaginu settist saman, vann að sameiginlegri framtíðarsýn og útbjó ný gildi fyrir Ísland. Útkoman úr þeirri vinnu voru 12 grunngildi; heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, jöfnuður, frelsi, mannréttindi, traust, lýðræði og fjölskyldan. Þau gildi skiptu þjóðina mestu máli þá. Hefði þjóðin farið í sams konar vinnu 2007 hefðu gildin líklega verið einhver allt önnur. En hvernig okkur sem þjóð hefur tekist að virða þessi grunngildi er vissulega stór og áhugaverð spurning. Áður en við getum svarað henni, þarf hvert og eitt okkar að svara fyrir sig sem einstaklingur og þátttakandi í íslensku samfélagi. Spyrja sig sjálft: Hver eru gildin mín og hvernig virði ég þau? Í mínum augum er það fólk sem er það sjálft, einstaklingar er hafa náð einstökum árangri og þroska í sínu eigin lífi. Fólk sem lifir eftir sínum eigin gildum og innri sannfæringu og það tjáir sig af einlægni og staðfestu. Ég þarf alls ekki að vera sammála í einu og öllu, síður en svo, en þetta er svo sannarlega fólk sem fær mig til að hlusta á sig og sínar skoðanir og viðhorf. Þar sem viðhorf þeirra og skoðanir koma frá hjartanu þá fá þessir einstaklingar mig til að gefa þeim allt það svigrúm sem þeir óska eftir, og þar með verður erfitt að sýna þeim óréttmæta dómhörku og leiðindi. Hver vill ekki vera í þessum hópi? Hér skiptir engu máli hvaða bakgrunn, eða menntun hver og einn hefur. Hér gildir svigrúm og einfaldur áhugi einstaklingsins á því að vita hver hann er, fyrir hvað hann stendur, lifa lífinu lifandi og já … bara vera hann sjálfur … einfalt ekki satt?




Skoðun

Sjá meira


×