Innlent

Um 400 íslensk börn nota svefnlyf við aukaverkunum ofvirknilyfja

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Tæplega fjögur hundruð börn eru á svefnlyfjum til að vega upp á móti ofvirknislyfjum á kvöldin. Sérfræðingur hjá Landlækni kallar eftir átaki innan læknastéttarinnar.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins skrifa fulltrúar frá embætti Landlæknis pistil um misnotkun og ofnotkun ADHD lyfja sem innihalda methýlfenídat. Greint er frá áhyggjum, bæði hérlendis og erlendis, af því að greiningar sjúkdómsins séu ekki alltaf nógu vandaðar. Gripið sé til lyfjagjafa áður en annað sé reynt.

Medýlfenídat lyf virkar örvandi. Sé það tekið á röngum tíma dags eða í of stórum skömmtum getur það valdið svefnörðugleikum en það geta einnig verið aukaverkanir hjá sumum við eðlilegri notkun. Við þessu virðast læknar hafa brugðist, í auknum mæli, með að ávísa svefnlyfjum á móti aukaverkunum Metílfenídats.

Samkvæmt tölum úr gagnagrunni Landlæknis hefur orðið gríðarleg aukning í þessu síðustu fimm árin. Munurinn er þó mun meira sláandi á meðal ofvirkra barna.

Árið 2007 voru 57 börn skráð á ADHD lyfjum og svefnlyfjum á sama tíma fjöldinn hefur svo farið vaxandi síðustu ár líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Í
fyrra, árið 2013, voru tæplega 400 börn skráð á methýlefenídat lyfi samhliða svefntöflum.

Taka ber fram að svefnlyfin Fenegan og Vallergan eru ekki með í þessari samantekt og því gæti fjöldinn verið töluvert meiri.

Ef líkindahlutfall fyrir svefnlyfjanotkun barna var reiknað á árunum 2004-2006 með tilliti til metýlfenídatnotkunar, voru þau börn sem tóku metýlfenídat á þessu árabili nær þrisvar sinnum líklegri til þess að taka svefnlyf samanborið við önnur börn.

Þetta sama líkindahlutfall var í kringum tuttugu fyrir árin 2010 til 2013. Það þýðir að börnin sem tóku metýlfenídat voru um tuttugu sinnum líklegri til þess að taka svefnlyf en önnur börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×