Skoðun

Aðgengilegra ESB

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Gera má ráð fyrir að þróun Evrópusambandsins verði í brennidepli í þjóðmálaumræðunni á næstunni. Umfjöllun um hana verður hluti af skýrslunni, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands á að vera búin að skila ríkisstjórninni. Forsætisráðherrann fær þá kannski svar við því "hvort eða hvernig ESB lifir af" eins og hann orðaði það fyrir kosningar. Þegar það lægi fyrir fannst honum "rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju".

Hröð þróun Evrópusambandsins hefur oft verið notuð sem átylla til að bíða með að taka ákvörðun um næstu skref í samskiptum Íslands við sambandið. Röksemdin um að það sé rétt að bíða, því að ESB geti orðið einhver allt önnur skepna eftir fáein ár, er orðin útjöskuð. Sambandið er í stöðugri þróun og það er ekki hægt að bíða eftir að hún stöðvist. Íslendingar þurfa fremur að gera upp við sig hvort aðferðin - að Evrópuríkin taki sameiginlegar ákvarðanir og deili valdi hvert með öðru til að mæta áskorunum nútímans - sé þeim hugnanleg og hvort þeir telji sig eiga samleið með ríkjum ESB í pólitísku og menningarlegu tilliti.

En hvernig er þróunin í ESB? Sambandið lifði krísu evrusvæðisins af, það fer ekki á milli mála. Til að ná tökum á henni voru gerðar tvær grundvallarbreytingar á starfsemi þess. Annars vegar náðist samkomulag um bankabandalag með sameiginlegu fjármálaeftirliti, innistæðutryggingakerfi og lánveitanda til þrautavara. Hins vegar varð til sáttmáli um ríkisfjármálabandalag með reglum sem eiga að koma í veg fyrir hallarekstur á ríkissjóði og skuldasöfnun í aðildarríkjunum.

Hvort tveggja þýðir þetta aukið framsal aðildarríkjanna á valdi til sameiginlegra stofnana ESB. Sumir telja að það sé vont fyrir Ísland og geri ESB að óaðgengilegra sambandi en þegar sótt var um aðild árið 2009. En þarf ekki lítið ríki sem hefur undanfarin ár átt í stórkostlegu basli bæði með bankakerfi sitt og ríkisfjármálin einmitt á þeim alþjóðlega aga að halda, sem felst í slíku samstarfi? Á hvaða forsendum ættu til dæmis núverandi stjórnarflokkar að vera á móti alþjóðlegum reglum sem banna fjárlagahalla og skuldasöfnun? Eða alþjóðlegu bankaeftirliti sem gæti hindrað annan Icesave-skandal?

Vilji Ísland áfram eiga aðild að EES munum við þurfa að taka upp að minnsta kosti hluta af reglum bankabandalagsins. Valdaframsalið sem í því felst útheimtir breytingar á stjórnarskrá - en það gerir líka það umfangsmikla framsal ríkisvalds sem átt hefur sér stað samkvæmt EES-samningnum, í takt við þróun ESB undanfarna tvo áratugi. Við höfum nefnilega flotið með í þeirri þróun á meðan við vorum að bíða eftir að sjá hvert hún leiddi - og án þess að hafa nokkur áhrif á hana.

Þriðja mikilvæga breytingin fyrir Ísland er að sjávarútvegsstefna ESB hefur færzt nær því sem gerist á Íslandi. Hún er alls ekki að öllu leyti aðgengileg fyrir Ísland, en ýmsir forystumenn sambandsins hafa lýst því yfir að ESB sé reiðubúið að finna lausnir til að koma til móts við sérstöðu Íslands.

Þróun ESB eftir að Ísland sótti um aðild hefur þannig verið í jákvæða átt út frá íslenzkum hagsmunum. Margir munu halda öðru fram, en það verður með langsóttum röksemdum.




Skoðun

Sjá meira


×