Viðskipti innlent

Aflaverðmæti minnkar milli ára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Veiðar á botnfiski skiluðu tæplega 75,9 milljörðum króna.
Veiðar á botnfiski skiluðu tæplega 75,9 milljörðum króna. Vísir/Stefán.
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 130,8 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins 2013. Veiðar á sama tímabili 2012 skiluðu 138,4 milljörðum og aflaverðmætið dróst því saman um rúmlega 7,5 milljarða króna, eða 5,5 prósent, á milli ára. Hagstofan greinir frá þessu.

Veiðar á botnfiski skiluðu tæplega 75,9 milljörðum króna, sem er samdráttur upp á 6,8 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti þorskafla nam 38,1 milljarði og dróst saman um 8,5 prósent frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 9,6 milljörðum og dróst saman um 7,2 prósent en verðmæti karfaaflans nam rúmum 11,5 milljörðum, sem er 4,1 prósent samdráttur frá fyrstu tíu mánuðum ársins 2012.

„Verðmæti úthafskarfa nam 2,1 milljarði króna á fyrstu tíu mánuðum ársins og jókst um 8% miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti ufsaaflans jókst um 7,9% milli ára og nam rúmum 8,6 milljörðum króna í janúar til október 2013. Verðmæti uppsjávarafla nam rúmum 41,6 milljörðum króna í janúar til október 2013, sem er um 2,1% samdráttur frá fyrra ári,“ segir í frétt Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×