Lífið

Kókoskjúklingur að hætti Birgittu

Ellý Ármanns skrifar
Mynd/rafn rafnsson
Birgitta Líf Björnsdóttir 21 árs laganemi, flugfreyja og dansari ræðir nýársheitin og gefur okkur uppskrift að kókosgrilluðum kjúkling sem einfaldlega getur ekki klikkað.

,,Heitin mín þetta árið eru fyrst og fremst að vera alltaf jákvæð, með því nær maður árangri. Ég ætla að standa mig vel í skólanum og vinnunni og mæta í ræktina fimm sinnum í viku að minnsta kosti en hreyfa mig samt alltaf eitthvað á hverjum degi. Markmiðið er alltaf að verða besta útgáfan af sjálfri mér," segir Birgitta. 



Þegar talið berst að hreyfingu segir Birgitta: ,,Hreyfingin sem ég ætla að stunda er svipuð og fyrri ár en auðvitað að vera betri og duglegri. Ég æfi dans í DWC sem er mín helsta hreyfing yfir veturinn, en að auki fer ég alltaf og æfi í World Class. Að hlaupa finnst mér ein besta hreyfingin en svo finnst mér gott að fara í tíma eins og Hot Yoga og Tabata. Markmiðið að vera duglegri að fara í þá."

Hvað með mataræðið á nýju ári? ,,Ég reyni alltaf borða hollt og hugsa um hvað ég set ofan í mig. Ég banna mér ekkert en passa upp á skammtana, gullna reglan er að allt er gott í hófi."

Birgitta notar kókosmjólkí kjúklingaréttinn.
Réttur sem slær í alltaf í gegn

,,Ég hef nokkrum sinnum gert þennan rétt af vefnum cafesigrun.com. Hann er frekar sterkur en slær alltaf í gegn og að auki er hann glúteinlaus og án eggja og hneta. Það er auðvelt að búa hann til en þar sem kjúklingurinn þarf að marinerast í tvær klukkustundir má gera ráð fyrir þeim tíma við undirbúning. Ég mæli með að bera hann fram með hýðishrísgrjónum og jafnvel nýbökuðu glóbrauði, sem er gróft Glóbrauð uppskrift frá Sollu, ef tími gefst til." 

mynd/getty
Kókosgrillaður kjúklingur

Fyrir 2-3

• 360 g kjúklingabringur

• 5 g ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt

• 12 g ferskt coriander, saxað gróft

• 2 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt

• 2 rauðir chili pipar

• 200 ml kókosmjólk

• 1 tsk kókosolía

• 2 msk tamarisósa

• 1 msk agavesíróp

• 0,5 msk fiskisósa (Nam Plah)

• Safi úr 1 límónu

Aðferð 

1. Afhýðið engiferið og hvítlaukinn og saxið smátt. 

2. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.

3. Saxið coriander gróft.

4. Blandið saman í stóra skál; chili pipar, engifer, hvítlauk, coriander, kókosmjólk, agavesíróp, tamarisósu, fiskisósu og sítrónusafa. Hrærið vel.

5. Setjið kjúklinginn ofan í sósuna og dreifið vel yfir. Látið skálina í ísskáp og látið kjúklinginn marinerast í tvær klukkustundir.

6. Hitið kókosolíu á pönnu og steikið kjúklinginn ásamt svolitlu af marineringunni. Steikið þangað til kjúklingurinn er tilbúinn. Hitið afganginn af sósunni í potti þangað til hún er farin að sjóða og berið fram með kjúklingnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.