Skoðun

Spítalabygging og kjaradeila í sjálfheldu

Sigurður Oddsson skrifar
Í febrúar 2009 skrifaði ég „Landspítala skal byggja í Fossvogi“ (https://www.mbl.is/mm/mogginn/pennar/skrifa.html?art_id=74697). Áður hafði ég fylgst með skrifum Ólafs Arnars Arnarsonar læknis í Mbl. og vitnaði í grein hans. Hann benti á að erlendir sérfræðingar bentu á að hentugra væri að byggja við Fossvogsspítala. Kostnaður væri 70 milljörðum lægri en við Hringbraut. Margir hafa skrifað og mótmælt spítala við Hringbraut. Nú virðist ég einn eftir. Ástæða þrjóskunnar er sú, að í hvert skipti sem ég skrifa hringir fólk í mig, sem ég þekki ekkert og er sammála.

Nýlega fékk ég bréf frá fyrrum skólafélaga, sem skrifaði að búið væri taka ákvörðun, sem því miður væri röng og ég ákvað að skrifa eina grein og snúa mér svo að einhverju öðru, t.d. umhverfismálum.

Ég sá eða heyrði einhvers staðar að við byggingu nýs spítala þyrfti að vera nægilegt pláss við hliðina fyrir byggingu spítala, eftir 50 ár. Nóg pláss er fyrir nýjan spítala hvort heldur sem er, sunnan eða austan við Borgarspítalann.

Ég hef velt fyrir mér hvernig standi á því að þeir sem ráða skuli ekki virða viðlits röksemdir sem settar hafa verið fram Fossvoginum í hag. Niðurstaðan er pólitísk pattstaða:

Fyrri stjórn hefði getað byrjað að grafa út landið fyrir 4 árum samtímis teiknun húsins. Í leiðinni hefði mátt bjarga nokkrum verktökum frá að missa tæki sín úr landi og vera eftir sem áður bundnir á skuldaklafa Lýsingar. Í staðinn slógu þau skjaldborg um fjármálafyrirtæki og leyfðu þeim að virða niður atvinnutæki og selja í útlöndum á mikið hærra verði. Nú lekur gjaldeyririnn til baka inn í landið í skjóli Fjármálaeftirlits og það með 20% gengisálagi Seðlabanka (SB). Allt með leynd þannig að SB virkar sem opinber peningaþvottastöð. Ránsfengurinn er svo í samkeppni við fyrirtæki, sem eru fyrir í landinu og fasteignir, sem fyrri eigendur misstu á uppboð eru keyptar af bönkum.

Hvernig geta flokkarnir, sem bera ábyrgð á þessu tekið núna vinkilbeygju í Fossvoginn?

Núverandi stjórn gerði ekkert í að leiðrétta villu fyrri stjórnar í spítalamálum. Heilbrigðisráðherra telur sig líklega bundinn af fyrra samkomulagi, hversu vitlaust sem það er. Þorir ekki að rugga bátnum og rétta af kúrsinn. Flýtur að feigðarósi. Hinn stjórnarflokkurinn hefur tekið umdeildar einhliða ákvarðanir, sem kostað hafa mikið fé. Merkilegt að þeir vilji ekki „sækja“ fé fyrir byggingakostnaði í Fossvoginn með byggingu þar. Kannski óttast þeir að fara inn á svið samstarfsflokksins eða telja sig stikkfrí af öxlun ábyrgðar, þar sem þeir eru ekki með ráðuneytið.

Helsta vonin er að einhver skarpgreindur eins og Frosti taki af skarið.

Besti flokkurinn vill nota skuldaleiðréttinguna til að byggja nýjan spítala við Hringbraut og sést yfir að bygging í Fossvogi er ódýrari, en sem nemur skuldaleiðréttingunni.

Lítil von er að eitthvað af viti komi frá þeim sem vilja eyðileggja góðan flugvöll og byggja nýjan, sem þeir vita hvorki hvar eigi að vera né hvað kostar.

Í minni flokkunum er mikið af ungu fólki. Ég bendi á að þau verða líka gömul og þá er gott að geta treyst á heilbrigðiskerfið.

Verðugt verkefni væri að fara yfir hversu faglega var staðið að ákvörðun um staðsetningu við Hringbraut. Hvenær var ákvörðunin tekin? Hvernig var gatnakerfi og umferð þá? Síðast en ekki síst hverjir komu að ákvörðuninni? Hvaða menntun og reynslu höfðu þeir hinir sömu af skipulags- og byggingamálum?

Sé einhver vafi á að þeir, sem að þessu komu, hafi verið hæfir, þá ber að gera strax samanburð við Fossvog með tilliti til: vinnuaðstöðu starfsfólks, staðsetningar miðað við umferð og að læknadeild HÍ flytji í Landspítalann við Hringbraut, kostnaðar (þeim mun lægri, sem byggingatími er styttri), rask á byggingartíma, virði byggingarlands, nýtingu núverandi húsnæðis við Hringbraut og í Fossvo

Ég er nokkuð viss um að útkoman verði sú að það borgi sig að byrja strax í Fossvogi frekar en setja X milljarða á ári í byggingu sjúkrahúss við Hringbraut í Y mörg ár (X,Y=?). Hvernig uppfyllir svo þetta hús kröfurnar, þegar byggingu er lokið? Er ekki bara verið að flytja Borgarspítalann í Landspítalann við Hringbraut, þar sem ekki er pláss fyrir hann?

Forsætisráðherra biðlar nú til aðila atvinnulífsins og vill þjóðarsátt um laun lækna. Geta þessir aðilar, sem sömdu um 3% hækkun lægstu launa, farið fram á það við sína umbjóðendur? Þeir lofuðu að aðrir skyldu ekki fá meira. Síðan hefur verið stöðugt launaskrið. Meiri hækkun til lækna kæmi fljótlega fram hjá opinberum starfsmönnum og svo upp allan launastigann. Hér er því líka pattstaða.

Vænlegra væri að bjóða fyrir þjóðarsátt hækkun skattleysismarka í t.d. 390.000 kr. Þá fengju þeir með lægri launin hlutfallslega meiri hækkun en t.d. þeir, sem semja fyrir þá um kjörin.

Hvort sem byggt verður við Hringbraut eða í Fossvogi þarf í kjaraviðræðum að liggja fyrir, hvenær nýr spítali verður tekinn í notkun. Læknar eru líka að flýja vinnuaðstöðu og aðrir veigra sér við að koma heim í aðstöðuna sem er í boði.




Skoðun

Sjá meira


×