Skoðun

Samgöngumál. Vestmannaeyjahöfn – Landeyjahöfn

Kristján G. Eggertsson skrifar
Undirritaður er áhugamaður um samgöngumál við Vestmannaeyjar og hefur starfað með hópi áhugafólks að bættum samgöngum milli lands og Eyja undir slagorðunum HORFUM TIL FRAMTÍÐAR.

Hópurinn boðaði til borgarafundar um samgöngumál í Vestmannaeyjum 18. apríl 2013, yfir fjögur hundruð manns mættu á fundinn.

Eftirfarandi kröfur voru settar fram á fundinum og samþykktar.

1. Endurskoðun á hönnun og frágangi Landeyjahafnar til öruggra siglinga verði sett í forgang og lokið sem allra fyrst

2. Hönnun Landeyjahafnar verði það vel úr garði að frátafir verði ekki meiri en við siglingar í Þorlákshöfn.

3. Þarfir Eyjamanna og flutningsgeta sitji í fyrirrúmi við hönnun farþegaferju, en ekki stærð Landeyjahafnar.

4. Að farþegaferjur á Íslandi verði skilgreindar sem þjóðvegur, hluti af þjóðvegakerfi landsins.

Það skal tekið fram að þessar hugleiðingar eru eingöngu á ábyrgð undirritaðs þó ég geri slagorð hópsins að mínum.

Já, horfum til framtíðar, það er einmitt það sem mér hefur þótt vanta mikið upp á að sé gert.

Ég var einn þeirra sem ekki var fylgjandi því að ráðist yrði í gerð Landeyjahafnar, hafði einfaldlega ekki trú á verkefninu. Mín skoðun var sú að byggja ætti stórskipahöfn hér fyrir innan (norðan) Eiði þar sem fram færi afgreiðsla allra stærri skipa svo sem fragtskipa, skemmtiferðaskipa o.fl. Byggður yrði nýr stór og gangmikill Herjólfur sem færi að lágmarki þrjár ferðir á dag til Þorlákshafnar. Siglingartími yrði innan við tvær klst. hvora leið.

Við skulum hafa það hugfast að yfir 90% farþega og vöruflutninga til og frá Eyjum stefna til Reykjavíkursvæðisins. Það liggur alveg ljóst fyrir að núverandi hafnaraðstaða í Vestmannaeyjum er að verða barn síns tíma. Sú uppbygging við höfnina sem gerð hefur verið á undanförnum árum hefur að stórum hluta verið með sama hætti og hafnargerðin var hönnuð um og upp úr miðri síðustu öld. Skip stækka stöðugt, bæði fiskiskip og fragtskip. Ekki er mögulegt að afgreiða hér nema litinn hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem til landsins koma. Við höfum ekki fylgt tímanum í uppbyggingu hafnarmannvirkja. Ég geri mér grein fyrir því að ráðast í gerð hafnar norðan Eiðis er mjög kostnaðarsamt verkefni, en dýrara verður að sitja eftir og missa af lestinni. Það verður að horfa til framtíðar.

Það var lítil framtíðarsýn að endurbyggja upptökumannvirki Hafnarsjóðs í núverandi mynd fyrir kostnað um 350 milljónir. Upptökugeta hennar er nú enn minni en þegar hún var byggð fyrir 30 árum, en lyftupallur var styttur um 12 metra. það er engin ástæða til að byggja upp fornminjar við höfnina. Þá vekur það athygli í annars mjög góðri framkvæmd við frárennsliskerfi bæjarins að leiðslan fram í sjó verður trúlega sett í væntanlegt framtíðarhafnarstæði norðan Eiðis. Þetta er ekki boðleg framtíðarsýn.

Eðlilegra hefði verið að leggja lögnina frá dælustöðinni (sama hvort hreinsibúnaður verður settur eða ekki) vestur með Skansaklettum, fylla upp að Stóra-Erni og setja leiðsluna þar vestur fyrir í sjó fram. Þetta gæti verið fyrsti áfangi í nýrri stórskipahöfn og vafalaust kostnaðarminna en núverandi framkvæmd.

Talsvert var rætt um gerð jarðganga milli Lands og Eyja. Það var stórkostleg hugmynd og slæmt að ekki skyldi lokið við rannsóknir þar að lútandi þegar sá möguleiki var blásinn af. Rétt væri að skoða þann kost nánar.

Eftir að ákvörðun var tekin um uppbyggingu Landeyjahafnar hef ég stutt verkefnið af heilum huga og fylgst vel með framkvæmdinni. Auðvitað er alveg frábært að skjótast hér yfir á 30-40 mín. Ferðafólki hefur fjölgað verulega, sem vonandi skilur mikið eftir í bæjarfélaginu og styrkir fjárhagsstöðu bæði þeirra er að ferðamálum standa svo og bæjarsjóðs. Þetta er alveg frábært ÞEGAR ÞAÐ VIRKAR.

Það er einmitt það, þegar það virkar. Landeyjahöfn hefur ekki virkað í neinu samræmi við þær væntingar sem gefnar voru út af hönnuðum verksins. Vonbrigði fólks hafa verið mikil, ekki hefur verið hægt að treysta á þessa „samgöngubót“ nema hluta úr ári. Hönnuðir, nokkrir embættismenn og stjórnmálamenn neita að sjá og hlusta á þær staðreyndir að Landeyjahöfn er ekki að virka. Hrópað er á nýtt skip. Mín skoðun er sú að ljúka eigi við gerð Landeyjahafnar, sem trúlega er vart meira en hálfnað verk og síðan kemur nýtt skip. Þá er hægt að hanna skip sem hentar okkur. Það er alveg fráleitt að hugsa sér að byggt verði minna skip en núverandi Herjólfur er. Þið sem með ferðina farið hlustið á þá sem reynslu hafa, jafnvel þó ráðleggingarnar komi að heiman. Takið tillit til ráðlegginga skipstjórnarmanna og annarra sjófarenda sem þekkja vel til hér við suðurströndina.

Ykkur hefur ekki verið falið að finna upp hjólið. Þeir hönnuðir sem innanríkisráðuneytið (Siglingamál og Vegagerð) fengu til verksins eru ráðalausir. Það verður að bregðast strax við því. Það á að hugsa stórt í þessum málum, það er verið að vinna með framtíðarmöguleika byggðar og atvinnulífs í Vestmannaeyjum til næstu áratuga. Samgöngumál Vestmannaeyja eru ekki og verða ekki einkamal fárra aðila. Það kann ekki góðri lukku að stýra hjá þeim sem vaða áfram með lítilsvirðingu gagnvart þeim sem tjá sig og hafa skoðun á samgöngumálum Vestmannaeyja. Já, sleppið því. Það gengur ekki að segja að Vestmannaeyingar skilji ekki um hvað málið snýst. Vestmannaeyingar (flestir) skilja býsna vel að málið gengur ekki upp.

Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum liggur fyrir að einungis hafi verið hægt að sigla til Landeyjahafnar þrjá til fjóra daga sl. desember og ekkert sem af er janúar 2014. Innsiglingin til hafnarinnar er kolófær fyrir hvaða skip sem er, alveg sama hver djúprista þess væri. Ekki hef ég kunnáttu til þess að segja til um hvernig á að hanna skip eða höfn, en það vakti óneitanlega athygli manna þegar þeir sáu síðustu framkvæmdir við Landeyjahöfn. Þar á ég við bryggjuþil sem rekið var niður norðan við viðlegukant Herjólfs. Helst dettur manni í hug leikmynd í áramótaskaupi, eða að þetta fyrirbæri sé sett þarna til þess að tryggja að höfnin verði ekki stækkuð inn í landið, sem flestum þætti eðlilegt. Grjóthleðslugarðar hafnarmannvirkjanna hafa reynst hið besta og segja okkur að hægt er að gera ýmislegt til þess að verja skip í aðkomu að hafnarmynninu.

Það er von mín að forystumenn bæði bæjar og ríkis sameinist í að ljúka þessu brýna verkefni í þágu framtíðarbyggðar í Vestmannaeyjum. Við höfum alveg efni á því án þess að seilast í eða sjá ofsjónum yfir því sem öðrum hefur tekist. Styðjum heilshugar fjárframlög bæði til lista, jarðgangagerðar og samgöngumála annars staðar á landinu. Við erum hluti af samfélaginu Íslandi og komum til með að ná okkar markmiðum án gífuryrða.




Skoðun

Sjá meira


×