Lífið

Myndaði samband sitt við móðurina

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Þær Yrsa Roca Fannberg og Helga Rakel Rafnsdóttir voru sáttar með áhorfendaverðlaunin.
Þær Yrsa Roca Fannberg og Helga Rakel Rafnsdóttir voru sáttar með áhorfendaverðlaunin.
„Þetta var æðislega gaman að sýna myndina í fyrsta sinn fyrir almenning. Ég var pínu stressuð yfir viðbrögðunum en þetta gekk upp,“ segir kvikmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg sem hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar fyrir mynd sína Salóme.

Myndin er frumraun Yrsu og fjallar um samband hennar við móður sína, Salóme Fannberg veflistakonu. Myndin hefur verið fjögur ár í bígerð en Yrsa byrjaði á henni er hún stundaði nám í heimildarmyndagerð á Spáni.

„Mig langaði að gera mynd um mömmu, manneskjuna á bak við listina. Hún byrjaði aftur að vefa á sama tíma og upptökur hófust, eftir 20 ára hlé, en myndin þróaðist síðan út í mynd um okkar samband,“ segir Yrsa sem var sjö mánuði í tökum. „Ég leigði íbúðina fyrir ofan mömmu og tökuferlið fór þannig fram að ég mætti niður til hennar á náttfötunum klukkan sjö á hverjum morgni. Mamma fékk sérsýningu á myndinni og ég held að hún hafi verið nokkuð sátt.“

Myndin er framleidd af Skarkala, sem er fyrirtæki Yrsu og Helgu Rakelar Rafnsdóttur, sem einnig á stóran þátt í myndinni ásamt fleirum sem lögðu hönd á plóg við gerð myndarinnar. Yrsa segir verðlaunin hafi komið sér á óvart og að hún voni að myndin fái áframhaldandi líf í kjölfarið.

„Mig langar að sýna hana í Reykjavík. Næst á dagskrá er að gera stuttmynd, eitthvað sem er á mörkum myndlistar og heimildarmyndar.“ Hægt er að fræðast um Yrsu og hennar verk á vefsíðunum Yrsarocafannberg.net og Yrsarocafannberg.info.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.