Skoðun

Skólafólk er lykilfólk

Friðrik Rafnsson skrifar
Fyrir nokkrum árum átti ég áhugavert samtal við gamlan menntaskólakennara. Hann var skólamaður af lífi og sál eins og langflestir í hans stétt, mjög metnaðarfullur, kröfuharður en sanngjarn og bar velferð nemenda sinna mjög fyrir brjósti, enda elskaður og dáður af þeim.

Hann sagðist allmörgum árum áður hafa hitt þingmann úr kjördæminu sem hann hefði verið ágætlega málkunnugur. Eftir að þeir höfðu rætt stundarkorn saman um veður, aflabrögð og heyskap barst talið að því hversu mikill munur væri á launakjörum menntaskólakennara og alþingismanna. Þingmaðurinn bar sig aumlega, sagði að það þingfararkaupið væri varla mönnum bjóðandi, nú yrðu þeir bara að fara gera eitthvað í málinu, krefjast þess að þingfararkaupið yrði að minnsta kosti sambærilegt við laun menntaskólakennara. Þingmaðurinn viðurkenndi að vissulega væru þetta miklar kröfur svona í einum rykk, en að kannski mætti stefna að því að ná að uppylla þær í áföngum.

Ég er vitaskuld ekki að rifja þetta upp til að gera lítið úr störfum alþingismanna, síður en svo, lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi eiga að sjálfsögðu að fá mjög sanngjörn laun fyrir sín þjóðþrifastörf. Þingfararkaup er nú um 630 þúsund krónur á mánuði, en meðallaun framhaldsskólakennara eru um 380 þúsund krónur. Frá því áðurnefndur menntaskólakennari átti samtalið við þingmanninn góða hefur þetta því snúist við, og það raunar fyrir nokkuð löngu. Þetta litla en áhugaverða dæmi sýnir glögglega hvernig gildismatið í samfélagi okkar hefur breyst. Það að uppfræða og annast unga fólkið okkar þykir ekki lengur eins dýrmætt og að setja lög, stjórna fyrirtæki, spá í hagfræðispil, sýsla með exceltöflur eða telja baunir.

Breyta þarf gildismatinu

Þetta er öfugþróun sem verður að stöðva. Ef við viljum halda áfram að þróa og efla nútímalegt þekkingarþjóðfélag og nýsköpun hérlendis, vera auðug og farsæl þjóð meðal þjóða, verðum við að breyta þessu gildismati og virkja betur mikilvægustu og áhugaverðustu auðlindina sem við eigum, heilasellurnar, gráa undraefnið sem við erum öll með í hausnum.

Skólafólk á öllum stigum menntakerfisins, þar á meðal framhaldsskólakennarar, er lykilfólk í íslensku samfélagi og ber meginábyrgðina á því að við búum áfram í velferðarsamfélagi á komandi árum. Þess vegna ætti að hækka laun þeirra til jafns við þingfararkaup. Vissulega eru það miklar og kannski ekki raunhæfar kröfur svona í einum rykk, en kannski mætti stefna að því uppfylla þær í vel afmörkuðum áföngum, svokölluðum framfaraskrefum.




Skoðun

Sjá meira


×