Skoðun

Heildarlaun lækna eru birtingarmynd manneklu

Gróa Björk Jóhannesdóttir skrifar
Ein helsta ástæða þess að íslenskir læknar eru í verkfalli og hafa boðað hertar verkfallsaðgerðir frá áramótum er skortur á nýliðun og óhófleg vinnubyrði.

Tölur fjármálaráðherra sl. þriðjudag um heildarlaun íslenskra lækna eru birtingarmynd manneklu. Ef meir en helmingur launa verður til utan reglubundins vinnutíma eru læknar að vinna of mikið, en ekki að fá of há laun. Kjarabaráttan snýst um að hækka hlut dagvinnulauna, fjölga í stéttinni og draga úr vaktabyrði. Hún snýst líka um að löng menntun og stutt starfsævi sé metin til launa og að laun lækna fylgi launaþróun sambærilegra stétta. Læknum er umhugað um þróun fags, menntun næstu kynslóðar og gæði þjónustunnar. Læknum er umhugað um heilsu og vildu gjarnan fylgja ákvæðum um lögbundinn hvíldartíma. Læknum er umhugað um velferð og öryggi sjúklinga og framsækna heilbrigðisþjónustu – því eru þeir í verkfalli.

Sjálf starfa ég við Sjúkrahúsið á Akureyri, sem framkvæmdastjóri sviðs, sérfræðingur í meltingarfærasjúkdómum barna og vakthafandi barnalæknir á víxl. Ég kæri mig ekki um 10 eða fleiri sólarhringsvaktir í mánuði ofan á fullt dagvinnustarf, hvorki fyrir mig né samstarfsmenn mína. Mín krafa er að Sjúkrahúsið á Akureyri fái ráðrúm til að vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir næstu kynslóð lækna – sérfræðinga og almennra lækna – með samkeppnishæfum launum og vinnuálagi. Til þess að þetta verði raunin verður að leiðrétta kjarasamninga og fjölga í liðinu. Þið vitið hver er með boltann. Hann þarf að forðast að láta reka sig af velli vegna leikbragða og tafa.




Skoðun

Sjá meira


×