Lífið

Lengi með mynd eftir Ísak í veskinu

Ugla Egilsdóttir skrifar
Hugleikur Dagsson og Ísak Óli eru góðir félagar.
Hugleikur Dagsson og Ísak Óli eru góðir félagar. Fréttablaðið/GVA
Listamennirnir Ísak Óli og Hugleikur Dagsson ætla að vinna saman að að listsköpun í tilefni af hátíðinni List án landamæra. Samstarf þeirra er liður í verkefninu Samsuða sem verður á dagskrá Listar án landamæra.

Samsuða gengur út á að para saman heilbrigða og fatlaða listamenn sem hafa áhuga á að vinna saman. Eggert Pétursson vinnur til að mynda með Guðrúnu Bergs.

Hugleikur segir að þeir Ísak Óli hafi þekkst í ár og öld.

„Ég hef þekkt Ísak Óla síðan hann var kannski átta ára. Þá var hann í Langholtsskóla og ég var liðveisla í sérdeild 1998 til 1999.“ Þeir eru þó ekki enn búnir að funda um þetta verkefni. „Ég hugsa að það geti engu að síður vafalaust blómstrað eitthvað einstakt út úr þessu,“ segir Hugleikur.

Hugleikur segist lengi hafa haldið upp á listsköpun Ísaks Óla, og gaman að sjá hvað myndir hans eru vinsælar. „Ég sé myndir eftir hann alls staðar. Fyrst þegar ég kynntist honum var hann meira að teikna en að mála málverk.

Ég man að einhvern tímann þegar ég var að vinna í Langholtsskóla var fyrir framan hann einhver miði. Á miðann teiknaði hann krumma, hund og svín og hest og mús og snjótittling.

Hann gaf mér teikninguna alveg upp úr þurru þegar ég var að vinna þarna. Ég geymdi þessa mynd í veskinu rosalega lengi. Svo týndi ég veskinu.“

Hugleikur gladdist yfir því að sjá hvað Ísak var afkastamikill málari.

„Foreldrar hans hvöttu hann til þess að byrja að mála vegna þess að hann teiknaði svo mikið magn af myndum. Þau héldu að það að mála með málningu og pensli myndi hægja á honum. En það hægði ekkert það mikið á honum, það er ótrúlega mikið magn til eftir hann.“

Nýlegasta eiginlega samstarf þeirra félaga var fyrir Svarta sunnudaga hjá Bíói Paradís.

„Þá bað ég hann um að gera mynd af Pee-Wee Herman fyrir Pee-Wee Herman-plakat. Ég er ekkert búinn að spá í það hvað við munum gera í þetta sinn. Ég ætla að sjá hvað kemur út úr því þegar við hittumst.

Við erum báðir mikið fyrir teiknimyndir og myndasögur. Ég er allavega með eina mynd af Tinna og félögum uppi á vegg eftir hann og það gæti verið að ég prófi að teikna eitthvað af hans vinsælustu viðfangsefnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.