Lífið

Kærastinn sem allir eru að tala um

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bassi Ólafsson er hér ásamt kærustunni sinni Ernu Kristínu. Á milli þeirra er hundurinn Tumi sem stefnir óðfluga á það að verða kvikmyndastjarna.
Bassi Ólafsson er hér ásamt kærustunni sinni Ernu Kristínu. Á milli þeirra er hundurinn Tumi sem stefnir óðfluga á það að verða kvikmyndastjarna. mynd/einkasafn
„Þetta byrjaði þegar kærastan var í prófum í háskólanum og var gjörsamlega að mygla, eða mygla er eiginlega of vægt orð til að lýsa því. Þá fór ég að reyna að stytta daginn fyrir hana með myndbandi á hverjum degi í desember,“ segir draumakærastinn og trommuleikarinn Bassi Ólafsson. Hann var iðinn í desembermánuði við að senda kærustunni sinni og guðfræðinemanum, Ernu Kristínu Stefánsdóttur, myndbönd í þeim tilgangi til að gleðja hana í prófatíðinni og hefur þessi gjörningur hans vakið mikla athygli undanfarið.

Nú hefur verið stofnuð læksíða á Facebook sem ber nafnið Bassi Ólafsson – Kærastinn og hafa tæplega fjögur þúsund manns lækað þá síðu á einungis þremur dögum.

„Þetta er búið að dreifast eitthvað óvenju hratt út um allt net þannig að nú er fólk allt í einu byrjað að pikka í hvert annað úti í búð flissandi, ég sé það alveg,“ segir Bassi léttur í lundu. Hann bætir við að það gleðji hann mikið að fólk geti hlegið að þessu. „Það er eitthvað svo miklu auðveldara og skemmtilegra að lifa lífinu með gríni og sjá skoplegar hliðar á alvarlegum málum.“

Bassi er trommuleikari og hefur komið fram með listamönnum á borð við Benny Crespo"s Gang, Megas, Lay Low, Kiriyama Family og Pétri Ben svo fáeinir séu nefndir. Eru félagarnir ekkert að skjóta á rómantíska trommarann? „Nei, nei, þeir eru sultuslakir. Þeim finnst þetta bara skondið af því að ég er bara alls ekki týpan í þetta dæmi, vera með einhverja opinbera grínsíðu,“ segir Bassi léttur í lundu.

Það má segja að Bassi setji ansi gott fordæmi fyrir aðra kærasta með þessum skemmtilegum myndböndum. „Tilgangurinn var að gleðja kærustuna og hún er glöð þannig að já, mér finnst það nú vera gott fordæmi til að fylgja allavega.“ Hann segist ekki vita til þess að Erna Kristín hafa fengið kalt augnaráð frá öðrum kærustum út af öfundsýki.

Spurður um þau myndbönd sem aðdáendur megi búast við á næstunni, segir hann það bara fara eftir því hvernig lífið spilist. „Það eru sannleikskorn í flestum af þessum myndböndum, bara vel ýktar útgáfur. Ég fór til dæmis á þetta jólaball með dóttur minni um jólin og það voru allir hoppandi og dansandi í geggjuðu stuði að syngja um átta litla negrastráka á meðan ég stóð þarna með kjálkann niðri í gólfi að slá mig utan undir til að vera viss um að ég væri staddur á árinu 2013!“ útskýrir Bassi.

Hann bætir við að hann verði líklega svefnlaus og hrukkóttur við að gera brandara fyrir fólk næstu vikur og mánuði sennilega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.