Skoðun

Hvers vegna má ég ekki ganga í sérskóla?

Ásta Kristrún Ólafsdóttir skrifar
Ég bar upp þessa spurningu í grein fyrir fjórum árum en efnisleg svör hafa enn ekki fengist en þónokkuð af froðusnakki, útúrsnúningum og bulli.

Hér eru nokkur dæmi.

1.    Hvers vegna má ég ekki ganga í sérskóla fyrir börn sem eru með þroskahömlun eins og ég?

Vegna þess að það má ekki aðgreina fólk á grundvelli greindar eða vitsmuna.

2.    Hvers vegna má Svana vinkona mín ganga í sérskólann en ekki ég?

Vegna þess að Svana er með greindarvísitölu 49 en þú ert með greindarvísitölu 50.

3.    Varstu ekki að segja að það mætti ekki mismuna fólki á grundvelli greindar?

Uh..  foreldrar Svönu völdu að senda hana í sérskólann.

4.    Af hverju mega foreldrar Svönu velja skóla en ekki mínir foreldrar?

Af því þú ert með hærri greindarvísitölu en Svana.

5.    Það stendur í lögum að foreldrar geti valið sérdeild eða sérskóla fyrir börn sín ef þau þrífast ekki í almenna skólanum.

Já, en í framkvæmd eru það foreldrar SUMRA barna sem ekki þrífast, sem mega velja.

6.    Það er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Uuum. Það eru mannréttindi þín að ganga í þinn hverfisskóla.

7.    Eru það mannréttindi að pína börn til að vera þar sem þeim líður illa?

Þér á ekki að líða illa í skólanum. Getur þú ekki bara hætt því?

8.    Mér líður illa í skólanum mínum vegna þess að ég get ekki það sama og hinir nemendurnir, skil ekki það sem þau skilja og get ekki lært það sem þau læra. Ég er ein, aðgreind, öðruvísi og vanmáttug. Krakkarnir eru flestir góðir við mig, sumir stríða mér og hlægja að mér en flestir láta mig í friði. Mig langar að vera með jafningjum mínum í skóla þar sem ég get eignast vini. Alvöru vini.

Já en við eigum að fagna margbreytileikanum! Sumir eru svartir eða brúnir. Sumir eru innflytjendur og sumir eru haltir eða með gleraugu eða í hjólastól.

9.    Ertu að djóka í mér? Eða heldur þú að svartir innflytjendur  í hjólastól eða með gleraugu séu allir þroskahamlaðir? Þeir sem hafa óskerta greind geta lært og skilið, spjallað og eignast vini á jafningjagrunni. Líka þeir sem eru brúnir og í hjólastól.

U ....... Skóli án aðgreiningar er stefna.

10.    Ha?

Við erum bundin af alþjóða samþykktum um að ekki megi mismuna fólki og að allir eigi rétt á námi og kennslu við hæfi.

11.    Má ég þá ganga í sérskóla eins og Svana og fá nám og kennslu við hæfi?

Nei.

12.    Hvers vegna ekki?

Vegna þess að þú átt rétt á að ganga í almennan skóla. Elskan mín, þú hefur ekkert val.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×