Lífið

Stofnuðu Samtök grænmetisæta

Sara McMahon skrifar
Útvarpsmaðurinn Sigvaldi Ástríðarson er formaður Samtaka grænmetisæta á Íslandi.
Útvarpsmaðurinn Sigvaldi Ástríðarson er formaður Samtaka grænmetisæta á Íslandi. Fréttablaðið/Pjetur
„Okkur þótti tímabært að reyna að tryggja að grænmetisætur á Íslandi geti lifað hamingjusömu lífi án þess að neyta kjöts. Okkur langar til dæmis að reyna að bæta úrvalið af réttum á veitingastöðum og upplýsa fólk um að hér búi mikill fjöldi fólks sem borðar ekki hinn hefðbundna, íslenska mat. Okkur langar að geta farið á veitingastað og pantað grænmetissúpu sem er ekki með kjötkrafti í, eins og er svo víða,“ segir Sigvaldi Ástríðarson, formaður nýstofnaðra Samtaka grænmetisæta á Íslandi.

Samtök grænmetisæta eru til víða um heim og standa þau meðal annars að fræðslu og ýmsum viðburðum fyrir grænmetisætur. Að sögn Sigvalda þótti þörf á slíkum samtökum hér á landi því grænmetisætur mæta gjarnan skilningsleysi og fordómum. „Við viljum sýna fólki að grænmetisætur eru ekki táningar að ganga í gengum tímabil. Við erum allt frá því að vera stórir, skeggjaðir karlmenn yfir í venjulegt fólk sem sumt hefur verið grænmetisætur allt sitt líf.“

Sigvaldi starfar sem útvarpsmaður á Rás 2 og innan tölvugeirans. Hann og kona hans gerðust grænmetisætur árið 1999 en Sigvaldi gekk svo skrefi lengra og gerðist vegan fyrir sjö árum. Fólk sem aðhyllist veganisma neytir engra dýraafurða né gengur í fatnaði unnum úr dýraafurðum.

„Upphaflega gerðumst við grænmetisætur vegna þess að við höfðum ekki efni á kjöti og erum bæði miklir dýravinir. Svo bættust fleiri ástæður við; heilsufarslegar, mengunarvarnir og annað. Ég ákvað svo að gerast vegan fyrir sjö árum og það var mun auðveldara en ég hafði búist við,“ segir Sigvaldi að lokum. Finna má samtökin á Facebook undir nafninu Samtök grænmetisæta á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.